í Óflokkað

Fjöldi fólks kom saman sunnudaginn 28. júní 2015 á Arnarhóli í miðbæ Reykjavíkur til að fagna því að 35 ár eru nú liðin frá því að Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands, fyrst kvenna. Hátíðardagskráin bar yfirskriftina Þjóðin sem valdi Vigdísi og var í beinni útsendingu sjónvarps.

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, flutti opnunarræðu og rithöfundarnir Kristín Helga Gunnarsdóttir og Jón Kalman Stefánsson héldu hátíðarræður auk þess sem Vigdís Finnbogadóttir flutti ávarp.

Meða tónlistaratriða komu fram óperusöngvararnir Palle Knudsen frá Danmörku og Ylva Kihlberg frá Svíþjóð, hljómsveitin Baggalútur og hljómsveitin Samaris. Einnig var frumflutt lagið Vigdís eftir Má Gunnarsson, 15 ára tónlistarmann. Flutt voru atriði úr sýningunni Leitin að Jörundi – sápuóperu um Hundadagakonung.

Nemendur af sviðslistadeild Listaháskóla Íslands og félagar úr Stúdentaleikhúsinu sáu um kynningartexta undir leiðsögn Andra Snæs Magnasonar rithöfunds.

Listrænn stjórnandi viðburðarins var Kolbrún Halldórsdóttir.

Skipulag hátíðarhaldanna var í höndum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Háskóla Íslands, Alþingis, Reykjavíkurborgar, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Samtaka atvinnulífsins, framkvæmdanefnd um 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna, Skógræktarfélags Íslands auk fjölda annarra stofnana og félagasamtaka.

Hér má sjá myndir sem teknar voru við þetta tækifæri.

Aðrar fréttir
X