í Óflokkað

Um þessar mundir vinnur Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum ásamt samstarfsaðilum sínum, námsleið í íslensku fyrir erlenda stúdenta við Háskóla Íslands, Menntavísindasviði Háskóla Íslands og Borgarbókasafni Reykjavíkur, að undirbúningi „tungumálaleikhúss“ þar sem tungumál verða kennd í gegnum leiklist. Nú á haustmisseri fer fram „pilot“-verkefni samstarfshópsins sem hrint var í framkvæmd í samvinnu við Fjölbrautarskóla Breiðholts.

Á fundi með fulltrúum Fjölbrautarskólans var ákveðið að bjóða upp á íslenskukennslu í gegnum leiklist fyrir tvo hópa nemenda sem hafa íslensku sem annað mál. Annar hópurinn er stutt á veg kominn í íslensku en hinn er skipaður lengra komnum nemendum. Í öðrum hópnum eru 15 nemendur og í hinum 19. Hóparnir tengjast námskeiðum ÍSAN1BE05 – íslenska sem annað mál og ÍSAN1GE05 – Íslenska sem annað mál III og mælist íslenskukunnátta nemenda á styrkleikanum A2 til B1 samkvæmt Evrópska tungumálarammanum.

Námskeiðin hófust þann 12. september 2016 og fara fram í Gerðubergi. Nemendur mæta einu sinni í viku 90 mín í senn í 10 vikur, frá september til desember 2016. Umsjónarkennarar hópanna f.h. Fjölbrautarskólans eru þau Gunnhildur Guðbjörnsdóttir og Ragnar Sveinn Magnússon. Kennarar eru María Garðarsdóttir og Ásta Ingibjartsdóttir sem einnig hefur umsjón með námskeiðinu.

Námskeiðið tvinnar saman leiklist og íslenskukennslu í óhefðbundnu kennsluumhverfi. Þátttaka nemenda er forsenda þess að námskeiðið nái tilætluðum árangri. Vinna nemenda mun speglast í gjörðum þeirra og sköpun á verki sem mun verða sviðsetning frásagna og texta. Fagurfræðilegt sjónarmið er mjög mikilvægt í þessari vinnu. Markmiðið er að efla hæfni í íslenskukunnáttu, sérstaklega tjáningu talaðs máls, í gegnum leiklist og texta, styrkja sjálfsímynd nemenda og ýta undir frásagnarhvöt þeirra sem og ímyndunarafl. Markmiðið er að sköpunin fari fram út frá þeirra hugarheimi. Námsmat felst í uppsetningu á sýningu fyrir almenning á efninu sem nemendur unnu með yfir misserið.

Námskeiðið er unnið með styrk frá Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) og Þróunarsjóði innflytjendamála.
 

Aðrar fréttir
X