Tveggja binda verk um samband Danmerkur og fyrrum hjálendna og nýlendna

Út er komið hjá Háskólaútgáfunni í Árósum tveggja binda verk sem nefnist Denmark and the New North Atlantic, en annar tveggja ritstjóra þess er Ann-Sofie Nielsen Gremaud, lektor í dönsku við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands. Í bókinni fjalla bókmenntafræðingar, listfræðingar, menningarfræðingar, sagnfræðingar og þjóðfræðingar um tengsl Færeyja, Grænlands, Íslands og strandsvæða Noregs við Danmörku og hvernig viðhorf til norðurslóða og stjórnmálaleg staða þeirra hefur breyst í kjölfar vaxandi áhuga á Norðurskautssvæðinu. Löndin tilheyrðu eitt sinn danska heimsveldinu og það mótar bæði innbyrðis tengsl landanna, sjálfsmyndir íbúanna, stjórnarfar, frásögur af fortíðinni og hugmyndir um framtíðina.

Meðal höfunda verksins eru fjórir kennarar við Háskóla Íslands, þau Ann-Sofie Nielsen Gremaud, Guðmundur Hálfdanarson prófessor í sagnfræði og forseti Hugvísindasviðs, Sumarliði Ísleifsson, lektor í hagnýtri menningarmiðlun og Ólafur Rastrick, dósent í þjóðfræði. Ann-Sofie, einn ritstjóri bókanna, segir verkið sérstakt að því leyti að höfundar texta hafi unnið mikið saman að gerð bókarinnar, þvert á fræði og þjóðerni. Það hafi skipt sköpum fyrir endanlega útkomu verksins að hafa verið samin í samstarfi ólíks fólks sem hafi átt það sameiginlegt að búa yfir mikilli þekkingu á tungumálum og menningu þjóðanna nyrst í Atlantshafi.

Flemming Besenbacher, formaður Carlsberg-stofnunarinnar sem studdi við útgáfuna, segir verkið frábært dæmi um það hvernig þverfaglegt samstarf efli rannsóknir. „Til að geta tekið skynsamlegar ákvarðanir um framtíðarsamband milli t.d. Danmerkur og fyrrum nýlendna, verðum við að skilja fortíðina og þá þræði sem tengir okkur við hana. Þessi útgáfa er dæmi um grunnvísindarannsóknir sem geta stuðlað að góðri umræðu um mikilvægt samfélagsmál“.

Nálgast má nánari upplýsingar á vef Háskólaútgáfunnar í Árósum