í Fréttir, News, VIMIUC
   
 

   

Myndir © UNESCO

Ásdís R. Magnúsdóttir, stjórnarformaður Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, tók þátt í ráðstefnu UNESCO sem haldin var í París þann 9. september í tilefni af Alþjóðadegi læsis. Á ráðstefnunni kynnti Ásdís miðstöðina og þær rannsóknaráherslur sem nú eru innan hennar, á tungumál og samskipti innan vestnorræna svæðisins. 

Þema ráðstefnunnar var „læsi og fjöltyngi“ en þar komu saman hagsmuna- og ákvörðunaraðilar úr öllum heimshlutum til þess að ræða um leiðir til að bæta stefnu og starfshætti varðandi læsi og fjöltyngi. UNESCO hefur tileinkað árið 2019 frumbyggjatungumálum, og var ráðstefnan einnig liður í því að vekja athygli á þeim málaflokki um leið og þess var minnst að 25 ár eru liðin frá því að Heimsráðstefna um sérkennslu var haldin.

Eftir að skilaboð Audrey Azoulay, aðalframkvæmdarstjóra UNESCO, voru flutt, tók til máls Stefania Giannini, aðstoðarframkvæmdastjóri UNESCO. Í ræðu sinni lagði hún áherslu á mikilvægi þess að stutt yrði við fjöltyngi með „heilsteyptri stefnumótun, jafnt innan sem utan menntageirans“.

Í lok ráðstefnunnar voru Alþjóðleg læsisverðlaun UNESCO árið 2019 veitt, en þau féllu í hlut verkefna frá Alsír, Kólumbíu, Indónesíu, Ítalíu og Senegal. 

Aðrar fréttir
X