í Fréttir, News, VIMIUC

 

Þéttsetið var á málstofu sem Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar stóð fyrir í gær á ráðstefnunni Arctic Circle. Umræðuefni fundarins voru frumbyggjamál norðurslóða en málstofan var skipulögð í tengslum við Alþjóðlegan áratug frumbyggjatungumála (IDIL 2022-2032). 

Fyrsti ræðumaður var Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor emeritus við Háskóla Íslands og fulltrúi Íslands í alþjóðlegri verkefnisstjórn sem stendur að IDIL 2022-2032. Sagði hún frá helstu stefnumálum Vigdísarstofnunar og þeim verkefnum sem þar eru fyrirhuguð í tengslum við áratuginn.

Því næst tók til máls Tove Søvndahl Gant, fulltrúi í fastanefnd Sameinuðu þjóðanna um málefni frumbyggja og sendifulltrúi Grænlands á Íslandi, og fjallaði um stöðu tungumála í Grænlandi og nauðsynlegar aðgerðir til eflingar þeim. Lagði hún ríka áherslu á hlutverk foreldra við að rækta tungumál sitt og nota það til samskipta við yngri kynslóðir.

Aluki Kotierk, forseti samtakanna Nunavut Tunngavik Incorporated og fulltrúi Kanada í alþjóðlegri verkefnisstjórn IDIL 2022-2032 hélt innblásna ræðu um baráttu Nunavut inuíta fyrir tungumáli sínu. Dró hún upp dökka mynd af ástandinu og sagði að víða væri brotið á tungumálaréttindum frumbyggja Kanada sem skilaði sér í hraðri hnignun á tungumálum þeirra þar sem ungar kynslóðir fengju hvorki næg tækifæri né hvatningu til að tileinka sér þau.

Kristin Solbjør, frá byggðaráðuneyti norsku ríkisstjórnarinnar og fulltrúi Noregs í alþjóðlegri verkefnisstjórn IDIL 2022-2032, sagði frá aðgerðum Norðmanna til stuðnings samískum tungumálum. Ýmsar stafrænar lausnir hefðu verið nýttar til eflingar samískunni og stórir alþjóðlegir miðlar og tæknifyrirtæki verið hvött til að þróa tækni sína á þann hátt að hún nýtist ekki aðeins stærstu tungumálum heimsins, heldur einnig tungumálum með fáa málhafa. 

„Það eru bestu stundir lífs míns þegar ég heyri dætur mínar tala saman á samísku“ sagði síðasti ræðumaður kvöldsins, Aili Keskitalo, ráðgjafi um málefni frumbyggja hjá Amnesty International í Noregi. Lýsti hún reynslu sinni af stafrænum lausnum og máltækni sem hún taldi að hjálpuðu ungmennum af samískum uppruna að viðhalda tungumálinu og bauð öðrum þjóðum að eiga í samstarfi við Sama til að reynsla þeirra gæti orðið fleirum til góðs.    

Var það samdóma álit allra þátttakenda málþingsins að tungumál og verndun þeirra væru lykilatriði til eflingar á samfélögum og menningu frumbyggja og hvöttu eindregið til þess að Alþjóðlegur áratugur frumbyggjatungumála yrði nýttur til að gefa frumbyggjatungumálum heimsins byr undir báða vængi um allan heim.

Aðalskipuleggjandi og stjórnandi fundarins var Sofiya Zahova, forstöðumaður Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar. 

 

 

 

 

   

Aðrar fréttir
X