í Fréttir

Margir helstu sérfræðingar heims í tungumálum í útrýmingarhættu og tungumálakortagerð voru samankomnir í Veröld – húsi Vigdísar dagana 23-25 ágúst þegar ráðstefnan FEL Conference XXII – Endangered Languages and the Land var haldin. 

Það var Alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar sem stóð fyrir ráðstefnunni í samvinnu við alþjóðlegu samtökin The Foundation for Endangered Languages, en aðalfundur samtakanna var haldinn samhliða ráðstefnunni.

Opnunarræður ráðstefnunnar voru fluttar af Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrum forseta Íslands og núverandi góðgerðarsendiherra UNESCO fyrir tungumál heims, og Elizu Reid, forsetafrú. Sebastian Drude, framkvæmdastjóri Alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, hafði veg og vanda af undirbúningi ráðstefnunnar þar sem lykilræðumenn voru Claire Bowern frá Yale háskóla, Jost Gippert frá Goethe háskólanum í Frankfurt, Jeff Good frá Buffalo háskóla og Kristine A. Hildebrandt frá Southern Illinois háskólanum í Edwardsville. 

Mikil ánægja var með ráðstefnuna meðal allra þátttakenda en í tengslum við hana verður gefið út veglegt ráðstefnurit með ritrýndum greinum nokkurra fyrirlesara.

Aðrar fréttir
X