í Óflokkað

Veröld – hús Vigdísar verður opið öllum almenningi um helgina, en með því vill Háskóli Íslands þakka fyrir þá miklu velvild og þann víðtæka stuðning sem Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur hefur notið á undanförnum árum og sér nú stað í nýbyggingunni Veröld.

Opið verður kl. 12.30-18 á Menningarnótt, laugardaginn 19. ágúst og kl. 13-17 sunnudaginn 20. ágúst. Á Menningarnótt geta gestir og gangandi fengið leiðsögn um húsið, fræðst um söguna sem að baki því býr og um þá tungumálakennslu og fræðastarf sem þar fer fram. 

Þá verður ný sýning um líf og störf Vigdísar Finnbogadóttur opin alla helgina án endurgjalds. 

Ýmis skemmtiatriði verða í boði á og við torg hússins á Menningarnótt og gestir geta fengið forsmekkinn að því sem koma skal á kaffihúsinu Café Veröld sem opnað verður í húsinu innan tíðar. 

Dagskráin hefst á því að borgarstjóri Dagur B. Eggertsson setur Menninganótt á torginu sunnan við Veröld. Við það tækifæri verður torgið vígt og samstarfssamningur Reykjavíkurborgar og Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar verður undirritaður. 

Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands flytur ávarp og Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands gróðursetur tré á torginu. Hljómsveitin Skuggamyndir frá Býsans mun skemmta gestum fyrir setninguna og Múltíkúltíkórinn undir stjórn Margrétar Pálsdóttur og Karlakórinn Þrestir munu syngja nokkur lög.

Að opnunarathöfninni lokinni verður boðið upp á leiðsögn um húsið á klukkutíma fresti, en fyrsta leiðsögnin verður klukkan 13:30. 

Kl. 14 verða sýndir balkandansar frá Kramhúsinu á torginu. Kl. 15 mun hljómsveitin Belleville stíga á stokk, en meðal meðlima hennar er starfsfólk í Veröld. Kl. 16 stígur Fjárlagabandið á stokk. 

 

Aðrar fréttir
X