Flest tungumál heimsins eru notuð af fáum málhöfum og mörg þeirra flokkast sem mál í útrýmingarhættu. Sum eru opinber mál / ríkismál, önnur eru minnihlutamál og enn önnur frumbyggjamál. Með auknu sambýli tungumála jaðarsetjast minnihlutamál, frumbyggjamál og fámennismál auðveldlega innan þjóðríkja. Þannig getur staða þeirra veikst og þau átt á hættu að deyja út. 

Á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í desember 2019 var áratugurinn 2022-2032  útnefndur Alþjóðlegur áratugur frumbyggjatungumála (IDIL 2022-2032) (sjá samþykkt A / 74/396, 18. desember 2019 ). Helstu markmið IDIL 2022-2032 eru að:

  • vekja athygli á alvarlegri fækkun frumbyggjatungumála og brýnni þörf á að varðveita, endurlífga og efla þau;
  • grípa til brýnna ráðstafana til að kynna frumbyggjamál á landsvísu og alþjóðavísu.

Nú fer fram undirbúningur alþjóðlegrar framkvæmdaáætlunar IDIL 2022-2032, þar sem gerð er grein fyrir stefnumótandi nálgun, helstu aðgerðir eru skilgreindar og leiðbeiningar til aðildarlanda Sameinuðu þjóðanna eru útfærðar. Birna Arnbjörnsdóttir hefur tekið sæti sem fulltrúi Íslands í stýrihóp og undirbúningsnefnd UNESCO vegna áratugs frumbyggjamála, en Ísland var valið ásamt Noregi til setu í stýrihópnum fyrir hönd Evrópu.

Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar sem starfar undir hatti UNESCO, hefur lýst yfir vilja til að styðja við áratuginn með verkefnum sem lúta að fámennistungumálum, og byggja þar á langri rannsóknarreynslu innan þess málaflokks. Innan Vigdísarstofnunar var settur á laggirnar vinnuhópur til undirbúnings fyrir Alþjóðlegan áratug frumbyggjatungumála þar sem nú eru lögð drög að þeim verkefnum sem stofnunin mun hrinda í framkvæmd í tilefni IDIL 2022-2032. Í vinnuhópnum eru Ásdís Rósa Magnúsdóttir, stjórnarformaður Vigdísarstofnunar, og Sofiya Zahova og Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir, starfsmenn miðstöðvarinnar.

Markmið Vigdísarstofnunar, innan ramma IDIL, er að stuðla að eflingu fámennismála á margvíslegan hátt. Á meðan á IDIL 2022-2032 stendur, mun Vigdísarstofnun:

  • leggja áherslu á verkefni sem tengjast fámennismálumhverfi, minnihlutamálum og bókmenntum þeirra;
  • skapa vettvang fyrir umræður um áhrif tungumálasambýlis á minnihluta- og fámennismál og endurskoðun á málstefnum til að ýta undir lífvænleika tungumála;  
  • vægi þýðinga frá og yfir á fámennismál;
  • deila, kynna og miðla upplýsingum um IDIL 2022-2032, verkefni, starfsemi og árangur á Íslandi og meðal samstaraðila.

Sjá nánari upplýsingar á vefsíðu Vigdísarstofnunar um IDIL 2022-2032.

 

X