Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar hefur aðsetur í Veröld – húsi Vigdísar. Miðstöðin er starfrækt undir merkjum UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna og er undirstofnun Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands.

Alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar hóf störf sumardaginn fyrsta 2017 þegar Veröld – hús Vigdísar var formlega tekin í notkun. Innan miðstöðvarinnar er staðið fyrir ráðstefnum, málþingum, fyrirlestrum, rannsóknum, kvikmyndasýningum, námskeiðum, fundum, sýningum og fræðslu um tungumál í víðu samhengi, sem þjóna þeim markmiðum sem koma fram í  samstarfssamningi Ríkisstjórnar Íslands og UNESCO frá 2013. Helstu markmiðin eru að:

  • stuðla að fjöltyngi til að auka skilning, samskipti og virðingu milli menningarheima og þjóða;
  • auka vitund um mikilvægi tungumála sem grunnþáttar í menningararfleifð mannkyns;
  • stuðla að þýðingum og þýðingarannsóknum og athugunum og greiningu á þýðingaflæði;
  • vinna að varðveislu tungumála og vöktun á málstefnu og málstýringu á sviði tungumála með fjöltyngi að leiðarljósi;
  • stuðla að rannsóknum og menntun í erlendum tungumálum og menningu;
  • styðja við og stuðla að rannsóknum á móðurmálum sem hluta af almennum mannréttindum.

Helstu áherslur í starfi Vigdísarstofnunar fyrsta áratug starfseminnar eru eftirfarandi:

  • Vistfræði tungumála á Vestur-Norðurlöndum, þ.e. sambýli tungumála og tengsl tungumála og menningar á vesturströnd Noregs, í Færeyjum, á Íslandi og Grænlandi.
  • Frumbyggjatungumál, fámennismál og lítil málsvæði, í tengslum við Alþjóðlegan áratug frumbyggjatungumála 2022-2032 (IDIL 2022-2032) í samvinnu við UNESCO.
  • Bókmenntir, tungumál og menning Rómafólks víða um heim, í tengslum við rannsóknarnetið Roma in the Centre.
  • Tungumálasýningin Mál í mótun sem opnar árið 2021, þar sem gestum gefst kostur á að kanna ýmis tungumál heimsins og fræðast um lífshlaup þeirra.

VIMIUC – Vigdís International Centre
for Multilingualism and Intercultural Understanding

Háskóli Íslands
Brynjólfsgötu 1
107 Reykjavík
s: 525 4191
Kt. 600169-4281
Hér erum við!

Opnunartímar

Veröld – hús Vigdísar 9:00-17:00

X