Í apríl 2005 skipaði háskólaráð starfshóp til þess að vinna að undirbúningi byggingar sem ætlað var að hýsa kennslu í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands, fyrirlestrasal, gagnasafn, sýningarrými, aðstöðu fyrir starfsmenn þáverandi Deildar erlendra tungumála (nú Mála- og menningardeild) og nemendur í erlendum tungumálum, málþing, ráðstefnur og kaffihús. Í kjölfar þeirrar vinnu var efnt til opinnar samkeppni í desember 2011 um hönnun byggingarinnar. Að vinningstillögunni stóðu andrúm arkitektar.
Fyrstu skóflustunguna að byggingunni tóku Vigdís Finnbogadóttir, Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra og Kristín Ingólfsdóttir, rektor, á alþjóðadegi kvenna hinn 8. mars 2015. Efnt var til samkeppni um heiti hússins þar sem Veröld – hús Vigdísar varð fyrir valinu.
Veröld – hús Vigdísar var vígð 20. apríl 2017 og þá hóf Vigdísarstofnun – Alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar einnig störf.
Í húsinu er stofa helguð Vigdísi Finnbogadóttur þar sem sjá má sýningu um ævi hennar og störf. Vigdísartorg kallast á við starf Vigdísar á sviði leiklistar og þar var gróðursett birkitré sem minnir á áhuga hennar á náttúruvernd og landgræðslu. Frá júní 2020 hefur fyrirlestrasalur Veraldar borið heitið Auðarsalur til heiðurs Auði Hauksdóttur sem þá lét af störfum en hún gegndi stöðu forstöðumanns Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur frá 2001-2018.
VIMIUC – Vigdís International Centre
for Multilingualism and Intercultural Understanding
for Multilingualism and Intercultural Understanding
Háskóli Íslands
Brynjólfsgötu 1
107 Reykjavík
s: 525 4191 / 525 4281
Kt. 600169-2039
Hér erum við!
Opnunartímar
Veröld – hús Vigdísar 9:00-17:00