Fyrri sýningar

Image
""

Inuit Qaujimajatuqangit: List, arkitektúr og hefðbundin þekking

Veröld – hús Vigdísar 6. janúar – 7. febrúar 2020

Sýningin Inuit Qaujimajatuqangit: List, arkitektúr og hefðbundin þekking er afrakstur samkeppni sem haldin var meðal Inúíta á Inuit Nunangat svæðinu í Kanada, um listskreytingar fyrir nýju Kanadísku Norðurslóða Rannsóknarmiðstöðina (CHARS) í Ikaluktutiak í Kanada. Til sýnis eru fimmtíu verk sem valin voru af innsendum tillögum og unnin eru undir yfirskriftinni Tímalaus sköpunargleði Inúíta í fortíð og nútíð, og er ætlað að varpa ljósi á samband hefðbundinnar þekkingar Inúíta við tækni og vísindi heimsins í dag. Sýningin er haldin í samstarfi við Sendiráð Kanada á Íslandi. Sýningin stóð yfir í sýningarsal Veraldar – húss Vigdísar, dagana 6. janúar – 7. febrúar 2020.  Sækja má sýningaskrá hér.

Image
""

Vistabönd

Veröld – hús Vigdísar 29. ágúst – 29. október 2019

Sýningin Vistabönd opnaði í sýningarsal Veraldar – húss Vigdísar fimmtudaginn 29. ágúst og stóð til 29. október. Þátttakendur eru Anna Þorvaldsdóttir tónskáld, Karlotta Blöndal myndlistarmaður, Unnar Örn myndlistarmaður, Olivia Plender myndlistarmaður, Kristín Ómarsdóttir rithöfundur og Ragnar Kjartansson myndlistarmaður.

Listamennirnir eiga það sameiginlegt að tengjast Banff listamiðstöðinni í Alberta í Kanada. Þar hafa þau dvalið í vinnustofum eða verk þeirra verið flutt. Sýningin er sett upp í tengslum við ráðstefnuna Vistaskipti sem fór fram í Háskóla Íslands í samvinnu við Manitóbaháskóla 29. til 30. ágúst 2019.

Þó verkin á sýningunni endurspegli ólík viðfangsefni listamannanna má finna þar sterk tengsl manns og náttúru. Ólíkir staðhættir verða uppspretta fyrir list sem finnur sér stað í fjölbreyttum miðlum en á sýningunni eru myndir, texti og tónverk.

Image
""

Fyrstu kynni. Grænlendingar á Ísafirði árið 1925

Veröld – hús Vigdísar 17. janúar – 30. júní 2019
og Landsbókasafn Ísland – Háskólabókasafn

Árið 1925 komu tæplega 90 Grænlendingar til Ísafjarðar en Grænlendingar höfðu vart sést áður hérlendis. Á sýningunni er fjallað um hvernig þessi heimsókn átti rætur að rekja til deilna Dana og Norðmanna um yfirráð á hluta Austur-Grænlands, hvernig tekið var á móti gestunum á Ísafirði, athyglina sem hún vakti og hvaða þýðingu hún hafði fyrir samskipti þjóðanna. Sýningin var sett upp í sýningarsal Veraldar - húss Vigdísar og á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og stóð yfir frá 17. janúar til 30. júní 2019.

Image
""

Sagatid - Nutid

1. desember 2018 – 2. febrúar 2019

Íslendingasögurnar komu út árið 2014 í nýrri danskri þýðingu, með myndskreytingum myndlistarkonunnar Karin Birgitte Lund. Sýning á verkum hennar fyrir útgáfuna er nú haldin í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands, en sýningin var opnuð af Margréti II. Danadrottningu þann 1. desember 2018 í Veröld – húsi Vigdísar, í tilefni 100 ára afmælis fullveldis Íslands.

Teikningarnar byggja á myndskreytingum og fagurfræði víkingatímans og miðalda, og Karin sækir innblástur í norræna myndlist þess tímabils. Verkin eru meðal annars undir áhrifum af íslenskum miðaldahandritum, veggmyndum í dönskum kirkjum, höggmyndum á Gotlandi og norskum stafkirkjum.
Á sýningunni eru einnig nokkrar glænýjar teikningar sem innblásnar eru af Íslendingasögunum.

Karin Birgitte Lund fæddist árið 1946 i Kaupmannahöfn og stundaði nám við Konunglegu dönsku listaakademíuna 1967–1973. Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir list sína. Meðal verka hennar eru hönnun og myndskreytingar nýrra danskra peningaseðla.

Image
""

Samtal - Dialogue

17. apríl 2017 – 15. desember 2018

Samtal – Dialogue er opnunarsýningin í Veröld – húsi Vigdísar, þar sem fjallað er í máli og myndum um störf og hugðarefni Vigdísar Finnbogadóttur. Sagt er frá námsárum Vigdísar erlendis og starfi hennar sem frönskukennari, leiðsögumaður og síðar leikhússtjóri Leikfélags Reykjavíkur 1972– 1980. Gerð er grein fyrir fjölbreyttu hlutverki hennar sem forseti Íslands árin 1980–1996 og öllu því góða starfi sem hún hefur unnið eftir að forsetatíð lauk, m.a. sem velgjörðarsendiherra tungumála á vegum UNESCO – mennta-, vísinda- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna og sem öflugur liðsmaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Í sýningunni fáum við jafnframt innsýn í hugðarefni Vigdísar, sjáum nokkrar eftirlætisbækur hennar, tilvitnanir og kvæði og getum fylgst með vexti Vinaskógar í Þingvallaþjóðgarði, sem stofnaður var henni til heiðurs. Gestir eru hvattir til að taka beinan þátt í samtalinu við Vigdísi, setjast á bláu leikhússtólana og hugleiða hugtök á borð við heiðarleiki, mannréttindi, menning, þekking , jafnrétti, tungumál, framfarir, víðsýni og menntun.