Íslenska English Dansk Svenska Deutsch Espanol Francais Japanese Chinese Concat us
Þú ert hér:

Nýjustu fréttir

Fleiri fréttir >
 • Fyrirlestur um fantasíu og töfraraunsæi í bókmenntum

  24. mars 2015

  Mathilde_Walter_ClarkDanski rithöfundurinn Mathilde Walter Clark heldur hádegisfyrirlestur á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum um fantasíu og töfraraunsæi í bókmenntum. Fyrirlesturinn ber yfirskriftina „Hvordan skriver man sig frem til virkeligheden?“ og fer fram á dönsku. Sérstakur viðmælandi er Einar Már Guðmundsson rithöfundur. Kynnir er Gísli Magnússon, lektor í dönskum bókmenntum, sem einnig stýrir umræðum. Fyrirlesturinn og umræður fara fram föstudaginn 27. mars kl. 15:00-16:30 í stofu 102 í Gimli í Háskóla Íslands.

  Árið 2011 gaf Mathilde Walter Clark út smásagnasafn með titlinum Grumme historier (Grimmar sögur). Þessar sögur minna á Skuggann eftir H.C. Andersen, Sjö kynjasögur (Syv fantastiske fortællinger) eftir Karen Blixen og Furðulegar sögur (Sære historier) eftir Villy Sørensen. Í smásögum Mathilde gerast furðulegar atburðir: kona fisksalans breytist í fisk, matargagnrýnandi týnir líkamshluta í hvert skipti sem hann borðar sælkeramáltíð… En eru hugtökin ‚töfraraunsæi‘ og ‚fantasía‘ viðeigandi? Eða endurspegla þau þrönga bókmennta- og veruleikasýn? Ætti frekar að tala um heimspekilegar sögur? Til að svara þessum spurningum fjallar Mathilde um hvernig við sjáum hlutina. Mathilde telur að veruleikinn sé eitthvað sem við nálgumst og að ljóðræn skynjun sé leið til að nálgast raunheiminn. Á Íslandi er töfraraunsæishefðin mjög sterk og rithöfundurinn Einar Már Guðmundsson tekur þátt í umræðum um hvernig skilja megi tengslin á milli veruleika og bókmennta.

  Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

  Viðburðurinn er skipulagður af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og námsleið í dönsku, með styrk frá Samstarfsnefnd um kennslu í Norðurlandafræðum erlendis og Kunststyrelsen, menningarstofnun Dana.

  Meira >
 • Hádegisfyrirlestur um suður-amerískar bókmenntir

  24. mars 2015

  Alejandro_RiberiAlejandro Riberi, lektor í spænsku við Háskólann í Hull í Bretlandi, heldur fyrirlestur á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum um bókmenntir Rómönsku Ameríku. Fyrirlesturinn ber yfirskriftina „Literature in the Rio de la Plata: Borges, Cortázar and being-in-the-world through the Fantastic“ og verður fluttur á ensku. Kynnir er Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku.

  Fyrirlestur fer fram fimmtudaginn 26. mars kl. 12-13 í stofu 201 í Árnagarði í Háskóla Íslands. 

  Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.

  Meira >
 • Heimur sagnanna: Norrænt Café Lingua fimmtudaginn 19. mars kl. 17-18:30

  12. mars 2015

  IslanningasagornaNorrænt Café Lingua, sem verður haldið í Norræna húsinu fimmtudaginn 19. mars kl. 17-18.30, ber að þessu sinni yfirskriftina "Heimur sagnanna".
   
  Árið 2014 voru Íslendingasögur og -þættir gefin út í nýjum þýðingum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Í inngangi að útgáfu sagnanna á hverju tungumáli fjalla þjóðhöfðingjar hvers lands um hlutverk sagnanna, bæði sem þjóðarbókmennta Íslendinga og sem norrænan menningararf. Einnig er rætt um þau gífurlegu áhrif sem sögurnar hafa haft á skrif fjölda norrænna rithöfunda. Í tilefni af þessari merku útgáfu verður í Norræna húsinu dagskrá þar sem rætt verður um áhrif Íslendingasagna á eitt þekktasta skáld Norðurlanda og það mikla verkefni að þýða Íslendingasögurnar á norræn mál.

  Jón Karl Helgason, prófessor í bókmenntum við Háskóla Íslands, mun fyrst ræða hvernig norska leikskáldið Henrik Ibsen sótti í Íslendingasögur í upphafi rithöfundaferils síns. Síðan munu þrír þýðendur sagnanna, Gro-Tove Sandsmark, sendikennari í norsku við Háskóla Íslands, Gísli Magnússon, lektor í dönsku við Háskóla Íslands, og Mikael Males, nýdoktor í norrænum fræðum við Háskólann í Osló, segja frá reynslu sinni af þýðingunum. Þau ræða hvernig farið er að því að færa sögurnar á norrænar tungur nútímans og upplýsa hver var stefna ritstjóranna í hverju landi.

  Café Lingua -  lifandi tungumál er tungumálavettvangur á vegum Borgarbókasafnsins og er þessi viðburður haldinn í samstarfi þess við Norræna húsið, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, námsleið í íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands sem og norræna lektora við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda við Háskóla Íslands.

  Viðburðurinn fer fram á norrænum tungumálum. Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

  Meira >