Íslenska English Dansk Svenska Deutsch Espanol Francais Japanese Chinese Concat us
Þú ert hér:

Nýjustu fréttir

Fleiri fréttir >
 • Alþjóðleg ráðstefna um Nordic Intercultural Communication

  25. nóvember 2014

  NICDagana 26.-28. nóvember nk. verður haldin á vegum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur alþjóðlega ráðstefnan Nordic Intercultural Communication um samskipti milli ólíkra menningarsvæða. Ráðstefnan fer fram á á Radisson Blu Saga Hotel.

  Meginþemu ráðstefnunnar verða þrjú:

  • Tjáskipti í háskólum og milli vísindamanna í alþjóðavæddum heimi
  • Tjáskipti, tungumál og menning á Norðurlöndunum
  • Þýðingar milli tungumála og menningarheima


  Aðalfyrirlesar eru:

  • Daniel Everett, prófessor og sviðsforseti við Bentley-háskóla í Massachusetts í Bandaríkjunum
  • Andreas F Kelletat, prófessor við Johannes Gutenberg-háskóla í Þýskalandi
  • Karen Risager, fv. prófessor við Hróaskelduháskóla


  Dagskrá og nánari upplýsingar má finna á vefsíðu ráðstefnunnar http://conference.hi.is/nic-2014/

  Meira >
 • Húsfyllir við Orðastað - Viðræðu um íslenskar latínumenntir

  21. nóvember 2014

  Latína er list mætÍ tilefni af útgáfu bókarinnar Latína er list mæt eftir Sigurð Pétursson, lektor emeritus, bauð Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur til viðræðu fimmtudaginn 20. nóvember 2014 um klassísk áhrif í íslenskum bókmenntum. Höfundur kynnti efni bókarinnar og sat fyrir svörum. Viðmælandi var Hjalti Snær Ægisson bókmenntafræðingur og annar ritstjóri bókarinnar ásamt Gunnari Marel Hinrikssyni.

  Latína er list mæt er safn greina um latínumenntir á Íslandi á árabilinu 1550-1800. Í bókinni er fjallað um fjölda latneskra kvæða eftir íslenska höfunda og allnokkur kvæði birt í tvímála útgáfum ásamt umfjöllun og skýringum. Rætt var um nám í latneskri málfræði, latínumenntun kvenna, þýðingu latínukunnáttu í embættiskerfi fyrri alda, klassísk stef í meðförum íslenskra skálda og aðlögun latneskra bókmenntaforma að íslenskum veruleika.

  Ásdís R. Magnúsdóttir prófessor opnaði viðburðinn fyrir hönd ritnefndar SVF. Hólmfríður Garðarsdóttir prófessor og forseti Deildar erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda flutti ávarp sem og Auður Hauksdóttir, prófessor og forstöðumaður SVF.

  Að viðræðunni lokinni var útgáfu bókarinnar fagnað með léttum veitingum. Yfir 70 manns mættu í Hannesarholt.

  Hér má sjá myndir sem teknar voru við þetta tækifæri.

  Meira >
 • Icelandic Online hlaut viðurkenningu á degi íslenskrar tungu 2014

  17. nóvember 2014

  Dagur_islenskrar_tunguÍ tilefni af degi íslenskrar tungu sem haldinn er hátíðlegur þann 16. nóvember ár hvert, veitti Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra vefnámskeiðinu Icelandic Online viðurkenningu fyrir sérstakan stuðning við íslenska tungu. Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum við Háskóla Íslands, stjórnarformaður og verkefnisstjóri Icelandic Online, og Úlfar Bragason, rannsóknaprófessor við Stofnun Árna Magnússonar, veittu viðurkenningunni móttöku.

  Námskeiðið Icelandic Online er vefnámskeið í íslensku sem erlendu máli. Það var tekið í notkun fyrir tíu árum og hefur bæst við námsefnið jafnt og þétt allar götur síðan. Icelandic Online er öllum opið og aðgangur er ókeypis. Námskeiðið er einkum ætlað erlendum háskólanemum en einnig öðrum sem áhuga hafa á íslensku máli og menningu, bæði  erlendis og hér á landi. Að verkefninu standa Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Hugvísindastofnun, Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Námskeiðið hefur stuðlað að aukinni íslenskukunnáttu svo um munar og hefur gagnast tugþúsundum notenda víða um heim.

  Auk Icelandic Online hlaut Lestrarhátíð í bókmenntaborg viðurkenningu fyrir sérstakan stuðning við íslenska tungu.

  Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar 2014.

  Icelandic Online

  Icelandic Online-verkefnið hefur nýverið fært út kvíarnar í samstarfi við Fróðskaparsetrið í Færeyjum um þróun Faroese Online en námskeiðið er ætlað innflytjendum í Færeyjum. Fyrirmynd færeyska námskeiðsins er Icelandic Online - Bjargir sem var opnað árið 2010. Bjargir eru eitt af sex námskeiðum undir hatti Icelandic Online-verkefnisins.
   
  Fyrsta Icelandic Online-námskeiðið var gefið út árið 2004 en það nýjasta, Icelandic Online 5, var opnað á síðasta ári. Námskeiðin eru gagnvirk og byggð á nýjustu rannsóknum í kennslufræði annarra/erlendra tungumála á netinu auk áralangrar reynslu af kennslu íslensku sem annars máls við Háskóla Íslands. Bjargir eru ætlaðar innflytjendum sem búa og starfa á Íslandi. Efni námskeiðsins er hagnýtt og tekur til daglegs lífs á Íslandi með þarfir innflytjenda í huga. Innihaldið er umfangsmikið og skiptist í sex samfellda kafla með um 260 fjölbreyttum æfingum.
   
  Tölvunarfræðinemar við Háskóla Íslands, Daníel Páll Jóhannsson og Össur Ingi Jónsson, ásamt Patrick Thomas tölvunarfræðingi vinna nú að þróun „apps“ til að unnt sé að bjóða Bjargir á nýjustu fartækjum, s.s. snjallsímum og spjaldtölvum. Færeyingar njóta góðs af þessari þróunarvinnu við gerð Faroese Online og nýta tæknihluta Bjarga, auk þess að þýða efnið og staðfæra fyrir sinn markhóp.
   
  Samstarfsverkefnið er styrkt af Nordplus Voksen. Í starfshópnum eru fyrir hönd Háskóla Íslands: Birna Arnbjörnsdóttir prófessor, Kolbrún Friðriksdóttir aðjúnkt, Patrick Thomas tölvunarfræðingur og Úlfar Bragason rannsóknarprófessor. Frá Fróðskaparsetri í Færeyjum: Hjalmar P. Petersen lektor, John Mikkelsen, tölvunarfræðingur og nemi, og Malan Marnersdóttir, prófessor og sviðsforseti. Frá Helsinki-háskóla: Helga Hilmisdóttir lektor.

  Mynd: Frá afhendingu viðurkenninganna á Degi íslenskrar tungu. Frá vinstri: Birna Arnbjörnsdóttir, Úlfar Bragason, Lára Aðalsteinsdóttir, Kristín Viðarsdóttir, Illugi Gunnarsson og Steinunn Sigurðardóttir.

  Meira >