Handhafar Vigdísarverðlaunanna

Image

2023: Anne Carson

Anne Carson, sérfræðingur í klassískum fræðum, skáld og þýðandi, er handhafi Vigdísarverðlaunanna 2023. Rektor Háskóla Íslands og fulltrúi mennta- og viðskiptaráðherra munu afhenda Carson verðlaunin við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands 6. október næstkomandi og mun Carson flytja erindi af því tilefni.

Anne Carson er fædd í Kanada. Hún hefur lengst af starfað sem prófessor í klassískum fræðum og kennt grísku og klassískar grískar bókmenntir við háskóla vestan hafs, meðal annars McGill, Princeton og New York-háskóla. Hún er einnig þekkt ljóðskáld, prósahöfundur, esseyisti og þýðandi. Framlag Anne Carson á sviði tungumála og menningar hefur vakið óskipta athygli í fræðum og listum. Efni skáldverka hennar er á stundum samofið arfi klassískrar menningar og gefur jafnframt vísbendingu um djúpstætt samband hugvísinda og listsköpunar. Hún hefur þýtt sum af helstu verkum klassískra bókmennta á forngrísku og latínu, og í skáldverkum ferjað ægifagra sýn harmleikjaskálda á svið samtímamenningar. Hún sver sig þannig í ætt við heimsþekkta rithöfunda nútímans sem fanga samspil sköpunar og eyðingar í mannlegri tilvist og samfélagi með því að horfa til arfs klassískrar menningar. 

Carson er handhafi styrkja frá meðal annars Guggenheim Foundation, MacArthur Foundation og American Academy í Berlin. Hún var fyrsta konan til að hljóta T. S. Eliot Prize bókmenntaverðlaunin og henni hafa hlotnast ýmsar aðrar viðurkenningar, þar á meðal Griffin Poetry Prize. Með störfum sínum á sviði klassískra fræða, skáldskapar og þýðinga er Anne Carson verðugur handhafi Vigdísarverðlaunanna 2023.

Í stjórn Vigdísarverðlauna frá 2022 sitja Rósa Signý Gísladóttir dósent í málvísindum (formaður stjórnar), tilnefnd af rektor Háskóla Íslands, Birna Bjarnadóttir rannsóknasérfræðingur í bókmenntum, tilefnd af Vigdísarstofnun, og Sigtryggur Magnason, íslenskufræðingur og aðstoðarmaður innviðaráðherra, tilnefndur af menningarmálaráðherra. Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóri rektorsskrifstofu Háskóla Íslands, starfar með nefndinni.

Image
""

2022: Juergen Boos

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra afhenti  Juergen Boos, forstjóra Bókastefnunnar í Frankfurt, alþjóðlegu Vigdísarverðlaunin 2022 við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands þann 5. október.

Juergen Boos hlýtur Vigdísarverðlaunin fyrir störf sín við Bókastefnuna í Frankfurt sem er stærsta og áhrifamesta bókastefna heims. Bókastefnan kynnir bókmenntir frá öllum heimshornum, einnig þær sem skrifaðar eru á tungumálum fámennra málsamfélaga. Árlega býður bókastefnan einu landssvæði að vera heiðursgestur en til að mynda voru bókmenntir frá Íslandi í kastljósinu árið 2011. Í störfum sínum á vegum bókastefnunnar hefur Juergen Boos vakið athygli á ríkidæmi tungumála og menningararfs í heimi bókmennta og veitt þar með höfundum, þýðendum, útgefendum og viðkomandi málsvæðum ómældan stuðning.

Juergen Boos varð forstjóri og stjórnarformaður Bókastefnunnar í Frankfurt árið 2005. Hann er jafnframt formaður LITPROM, félags sem kynnir með markvissum hætti afrískar, asískar og rómansk-amerískar bókmenntir, og starfandi formaður LitCam, nefndar sem hefur það að markmiði að efla læsi. Hann var sæmdur austurrískri heiðursorðu fyrir vísindi og listir árið 2017 og ári seinna útnefndur riddari af orðu bókmennta og lista í sendiráði Frakklands í Berlín. Juergen Boos er meðlimur vísindanefndar Sheikh Zayed bókaverðlaunanna og Akademíu þýsku bókmenntaverðlaunanna.

Í úthlutunarnefnd sátu Rósa Signý Gísladóttir dósent í málvísindum (formaður), tilnefnd af rektor Háskóla Íslands, Birna Bjarnadóttir rannsóknasérfræðingur í bókmenntum, tilefnd af Vigdísarstofnun, og Sigtryggur Magnason, íslenskufræðingur og aðstoðarmaður innviðaráðherra, tilnefndur af menningarmálaráðherra. Magnús Diðrik Baldursson skrifstofustjóri rektorsskrifstofu Háskóla Íslands starfar með nefndinni.

Image
""

2021: Katti Frederiksen

Grænlenska málvísindakonan, ljóðskáldið og baráttukonan Katti Frederiksen, mennta- og menningarmálaráðherra Grænlands, hlaut Vigdísarverðlaunin árið 2021.

Katti Frederiksen hefur með eftirtektarverðum hætti vakið athygli á málefnum grænlenskunnar jafnt innan lands sem utan. Með ljóðum sínum, fræðaskrifum, barnabókum og þátttöku í opinberri umræðu hefur hún verið óþreytandi við að minna á mikilvægi grænlenskunnar fyrir grænlenskt samfélag og hve brýnt sé að stuðla að vexti og viðgangi tungunnar svo hún megi nýtast á öllum sviðum mannlífs og þjóðlífs. Þá hefur Katti Frederiksen lagt sig eftir því að læra aðrar tungur en móðurmál sitt.

Katti Frederiksen hefur víða látið til sín taka. Hún lauk meistaraprófi í grænlensku, bókmenntafræði og fjölmiðlafræði frá Háskóla Grænlands í Nuuk, Ilisimatusarfik, árið 2011, en hluta námsins tók hún við University of Alaska í Fairbanks. Hún hefur átt sæti í Málnefnd Grænlands og starfað til fjölda ára hjá Oqaasileriffik, The Language Secretariat of Greenland, fyrst sem deildarstjóri (2008-2015) en síðar sem framkvæmdastjóri (2015–2020). Árið 2020 varð hún menntamálaráðherra Grænlands.

Með störfum sínum hjá Oqaasileriffik hefur Katti Frederiksen ásamt samstarfsfólki sínu fyrr og síðar lagt drjúgan skerf til verkefna sem er ætlað að efla og þróa grænlenska tungu og gera hana í stakk búna til að takast á við áskoranir á tímum þar sem allt veltur á þátttöku í og aðild að stafrænum lausnum.

Loks hefur Katti Frederiksen undirstrikað nauðsyn þess að börn og unglingar temji sér að tala og skrifa grænlensku til að styrkja sjálfsmynd Grænlendinga, vitund þeirra um eigin menningu og trú á framtíðina. Síðast en ekki síst sé kunnátta í móðurmálinu styrkasta stoðin í öllu námi þeirra.

Það var Þorbjörn Jónsson, ræðismaður Íslands á Grænlandi, sem afhenti Katti Frederiksen verðlaunin en þau nema sex milljónum íslenskra króna.

„Ég er með ýmislegt á prjónunum sem snertir tungumál og bókmenntir og þess vegna skipta Vigdísarverðlaunin gríðarlega miklu máli fyrir þau verkefni sem eru fram undan. Þau hvetja mig til dáða og gefa mér þrótt til að halda ótrauð áfram í átt að því marki sem ég hef sett mér,“ sagði Katti Frederiksen í þakkarávarpi sínu þegar hún tók við verðlaununum.

Í úthlutunarnefnd verðlaunanna sátu Guðmundur Hálfdanarson, formaður, tilnefndur af rektor Háskóla Íslands, Auður Hauksdóttir, tilefnd af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, og Sveinn Einarsson, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra, en Magnús Diðrik Baldursson starfaði með nefndinni.

Þakkarræða Katti Frederiksen

Image
""

2020: Jonhard Mikkelsen

Fyrsti handafi Vigdísarverðlaunanna, Jonhard Mikkelsen, hlaut þau fyrir einstakt framlag sitt til að efla og þróa færeyska tungu bæði inn á við og út á við. Jonhard er fæddur í Vestmanna árið 1953 þar sem hann er búsettur ásamt fjölskyldu sinni. Jonhard nam ensku við Árósarháskóla og færeysku við Fróðskaparsetur Færeyja. Hann hefur kennt færeysku á mennta- og háskólastigi, haft með höndum námsstjórn í færeysku fyrir framhaldsskóla, átt sæti í Málráði Færeyja og tekið þátt í blaðaútgáfu, en hann var ritstjóri helgarblaðsins Fregnis á árunum 2001-2004.

Árið 1993 stofnaði hann forlagið Sprotan og frá árinu 2016 hefur hann helgað því krafta sína. Forlagið Sprotin hefur m.a. staðið fyrir útgáfu kennslubóka, fræðsluefnis og þýddra skáldverka. Alls hafa komið út um 400 bækur hjá forlaginu. Þá hefur Jonhard unnið að gerð orðabóka milli færeysku, ensku og dönsku og stuðlað að samningu og þróun fjölda rafrænna tvímála orðabóka, nú síðast milli færeysku og grænlensku. Frábærlega hefur tekist til með að aðlaga orðabækurnar og notkun þeirra að nýjustu tækni. Á vefsvæði Sprotans er nú að finna 20 veforðabækur í opnum aðgangi sem nota má án endurgjalds. Veforðabækurnar eru mikið notaðar bæði af Færeyingum og fólki af öðru þjóðerni. Þær hafa gerbreytt aðgengi útlendinga að færeysku og færeyskra málnotenda að erlendum tungum.

Með störfum sínum hefur Jonhard Mikkelsen lagt drjúgan skerf til að styrkja færeyska tungu og festa hana í sessi sem lifandi tungumál á tímum alþjóðavæðingar. Verðlaunaupphæðin er sex milljónir íslenskra króna.

Það var Benedikt Jónsson sendiherra, aðalræðismaður Íslendinga í Færeyjum, sem afhenti Jonhard Mikkelsen fyrstu Vigdísarverðlaunin með þökkum fyrir einstakt framlag hans í þágu tungumálanna. Með því hefur hann stuðlað að fjölbreytni tungumála og menningar, en það er einmitt kjarninn í þeim boðskap sem Vigdís hefur haldið á loft sem velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO. Færeyska Kringvarpið tók afhendinguna upp en hún var kunngerð í hátíðardagskrá til heiðurs Vigdísi í Ríkissjónvarpinu á afmælisdaginn.

Í úthlutunarnefnd verðlaunanna sátu Guðmundur Hálfdanarson, formaður, tilnefndur af rektor Háskóla Íslands, Auður Hauksdóttir, tilefnd af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, og Sveinn Einarsson, tilnefndur af mennta- og menningarmálaráðherra, en Magnús Diðrik Baldursson starfaði með nefndinni.

Þakkarræða Jonhard Mikkelsen