Tungumál og menning á vestnorræna svæðinu

Image
""

Tungumál og menning á vestnorræna svæðinu

Tengsl tungumála og menningar og vistfræði tungumála á Vestur-Norðurlöndum eru í brennidepli hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur um þessar mundir. Markmiðið er að stuðla að aukinni þekkingu á stöðu tungumála á svæðinu jafnt í sögu sem samtíð. Með þetta að leiðarljósi hefur stofnunin komið á fót samstarfsnetinu Tengsl tungumála og menningar á vestnorræna svæðinu og hrint af stað tveimur rannsóknaverkefnum. Annað verkefnið er Tengsl færeysku, íslensku og norsku við dönsku á tímabilinu 1890-1920 og hitt er Tungumála barómeter, sem hefur að markmiði að skoða tengsl færeysku, grænlensku og íslensku við dönsku og ensku í samtímanum.

Þar að auki hafa fræðimenn stofnunarinnar staðið að þróun tölvustuddra námsgagna og máltækja til tungumálanáms. Má þar nefna Icelandic Online til náms í íslensku og Taleboblen, sem ætlað er til dönskunáms. Loks má nefna tölvuleikinn Talerum, sem er í þróun.

Stofnunin leggur áherslu á að miðlu þekkingu um tungumál og menningu á vestnorræna svæðinu bæði með ráðstefnu og fyririrlestrahaldi og sýningum.

Samstarfsnet

Samstarfsnet fræðimanna

Haustið 2015 veitti tungumálaáætlun Nordplus eins árs styrk til Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum til að koma á fót samstarfsneti danskra, færeyskra, íslenskra, norskra og sænskra fræðimanna, sem fást við rannsóknir á tungumálum og menningu á vestnorræna svæðinu. Ári síðar veitti Nordplus aftur styrk til verkefnisins til að halda samstarfinu áfram sem er áætlað að muni standa til loka árs 2020. Auður Hauksdóttir, prófessor í dönsku, leiðir samstarfsnetið.

Hvers vegna vestnorrænt samstarfsnet?

Kveikjan að samstarfsnetinu er sú áhersla sem Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur leggur um þessar mundir á stöðu tungmála og menningar á vestnorræna svæðinu, en það var ákvörðun starfsfólks stofnunarinnar að þessi heimshluti yrði í brennidepli þegar alþjóðlega tungumálamiðstöðin tæki til starfa í apríl 2017. Í ljósi þessa ákvað stjórn Alþjóðlegu tungumálamiðstöðvarinnar á fyrsta fundi sínum, hinn 10. september 2015, að fyrstu árin yrði starfsemi miðstöðvarinnar helguð tengslum tungumála og menningar á vestnorræna svæðinu. Sjónum yrði beint að vistfræði tungumála á Vestur-Norðurlöndum, m.a. stöðu heimamálanna og hvaða áhrif margvísleg tengsl þeirra við aðrar tungur hafa á vöxt og viðgang heimamálanna. Nefna má tengsl færeysku, íslensku og norsku við latínu og þýsku á fyrri tíð og dönsku og einkum ensku í samtímanum. Einnig yrði horft til þýðinga og áhrifa þeirra á málsamfélagið, sem og kennslu erlendra tungumála í skólum, t.d. ensku, þýsku og spænsku. Á vestnorræna svæðinu er danska kennd sem erlent tungumál, enda hefur danska lengi verið lykill Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga að norrænu málsamfélagi. Með hliðsjón af þessu vinnur samstarfsnetið að rannsóknum, sem geta varpað ljósi á dönskunám og dönskukunnáttu íbúa á vestnorræna svæðinu.

Markmið

Eins og áður segir kemur samstarfsnetið til vegna þeirrar ríku áherslu sem Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur leggur á stöðu tungumála og menningar á Vestur-Norðurlöndum. Samstarfsnetinu er ætlað að stuðla að rannsóknum sem geta varpað ljósi á þessa þætti, viða að upplýsingum um rannsóknir, sem þegar hafa verið gerðar, og miðla upplýsingum til leikra og lærðra um tungumál og tungumálatengsl á vestnorræna svæðinu.

Með samstarfsnetinu eru sameinaðir kraftar fræðimanna sem hafa rannsakað tungumál og menningu á Vestur-Norðurlöndum og þekkja til fyrri rannsókna. Meginmarkmiðið með samstarfsnetinu er að fá yfirsýn yfir þá þekkingu sem þegar er til staðar um stöðu tungumála á vestnorræna svæðinu, leggja drög að frekari rannsóknum og miðla upplýsingum um tungumál og menningu í þessum heimshluta. Í störfum netsins verður einkum horft til eftirfarandi þátta:

  • Tengsla færeysku, grænlensku, íslensku og norsku við dönsku og önnur erlend tungumál
  • Sambands tungumála og menningar
  • Þýðinga og tungumálatengsla
  • Kennslu erlendra tungumála, einkum skilnings og tjáningar á skandinavískum málum
  • Ferðabókmennta og menningartengsla.

 

Viðburðir á vegum samstarfsnetsins

 

Samstarfsfundur og ráðstefna í Veröld – húsi Vigdísar 31. janúar 2020

Samstarfsfundur var haldinn í Veröld – húsi Vigdísar, Háskóla Íslands í janúarlok 2020. Þátttakendur voru Malan Marnersdóttir prófessor og Bergur Djurhus Hansen lektor, bæði frá við Fróðskaparsetri Færeyja, Nina Møller Andersen, lektor við Kaupmannahafnarháskóla, Katti Frederiksen, forstöðumaður skrifstofu Málráðs Grænlands og Karen Langgård starfandi sérfræðingur þar. Frá Háskóla Íslands tóku þátt Birna Arnbjörnsdóttir prófessor, Ann-Sofie Gremaud lektor, Þórhildur Oddsdóttir aðjunkt og aðalskipuleggjandi ráðstefnunnar, Auður Hauksdóttir, prófessor.

Dagskrá fundarins má nálgast hér

Rætt var við Auði Hauksdóttur um efni ráðstefnunnar í Víðsjá þann 31. janúar 2020. Hægt er að hlusta á viðtalið hér.

Samstarfsfundur í Háskóla Íslands 2. og 3. mars 2018

Dagana 2. og 3. mars 2018 var haldinn samstarfsfundur í Veröld – húsi Vigdísar, Háskóla Íslands. Á fundinum kynntu þátttakendur rannsóknir sem tengjast áherslum samstarfsnetsins. Varpað var ljósi á hve takmarkað er til af rannsóknum á stöðu vestnorrænna tungumála og tengslum þeirra við aðrar tungur. Það á einkanlega við um rannsóknir sem fela í sér samanburð milli landa og málsvæða. Allir voru sammála um að brýnt væri að bæta þar úr. Tillögur að nýjum rannsóknum voru ræddar. Sérstaklega var fjallað um miðlun upplýsinga til leikra og lærðra, m.a. í formi málstefna/ráðstefna og útgáfu fræðirita, sjá dagskrá fundarins hér.

Samstarfsfundur í Háskóla Íslands 21. og 22. apríl 2017

Í tengslum við vígslu Veraldar – húss Vigdísar og í tilefni af því að formlegri starfsemi Alþjóðlegu tungumálamiðstöðvarinnar var hleypt af stokkunum var efnt til fundar í samstarfsnetinu dagana 21. og 22. apríl. Á fundinum voru framtíðarverkefni samstarfsnetsins rædd. Einnig var haldinn sameiginlegur fundur netsins, stjórnar Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og alþjóðlegrar ráðgjafarnefndar málvísindamanna, sem hefur verið Stofnun Vigdísar til ráðuneytis í tengslum við undirbúning og skipulagningu Alþjóðlegu tungumálamiðstöðvarinnar. Rætt var með hvaða hætti samstarfsnetið gæti stutt við áherslur stofnunarinnar á stöðu tungumála og menningar á vestnorræna svæðinu. Öllum þátttakendum var boðið að taka þátt í vígslu Veraldar – nýju tungumálabyggingarinnar og opnun Alþjóðlegu tungumálamiðstöðvarinnar, sem starfar undir merkjum UNESCO. Dagskrá fundarins er að finna hér og fundargerð hérSkýrslu Sebastian Drude, fv. forstöðumanns miðstöðvarinnar, um vestnorrænu áhersluna má sjá hér

Samstarfsfundur og ráðstefna í Reykholti 23. og 24. maí 2016

Dagana 23. og 24. maí 2016 stóð samstarfsnetið fyrir vinnufundi og ráðstefnu að Reykholti í Borgarfirði, sjá dagskrá hér. Meðal þeirra sem héldu erindi á ráðstefnunni voru Anju Saxena, prófessor við Uppsalaháskóla, Lars Borin og Jens Allwood, báðir prófessorar við Gautaborgarháskóla, Peter Austin, prófessor við University of London, og Bernard Comrie, prófessor við University of California og áður forstöðumaður hjá Max Planck-stofnuninni. Fundargerð frá ráðstefnunni má nálgast hér.

Fundur í samstarfsnetinu í Háskóla Íslands 12. og 13. mars 2016

Fyrsti fundu samstarfsnetsins fór fram í Þjóðminjasafni Íslands dagana 12. og 13. mars 2016. Á fundinum kynntu þátttakendur í netinu rannsóknir sínar og ræddu möguleg ný verkefni. Dagskrá fundarins má nálgast hér.

 

Þátttakendur í samstarfsnetinu

 

Danmörk:

  • Nina Møller Andersen, lektor í dönsku sem erlendu máli við Kaupmannahafnar­háskóla
  • Karoline Kühl, lektor í málvísindum við Kaupmannahafnarháskóla. Hefur m.a. rannsakað dönsku í Færeyjum (til vors 2017)
  • Peter Juel Henrichsen, tölvumálvísindamaður hjá Dönsku málnefndinni (áður dósent hjá Verslunarháskólanum í Kaupmannahöfn)

Færeyjar:

  • Malan Marnersdóttir, deildarforseti og prófessor í færeyskum bókmenntum við Fróðskaparsetur Færeyja
  • Bergur D. Hansen, lektor í færeyskum bókmenntum við Fróðskaparsetur Færeyja
  • Zakaris Svabo Hansen, lektor í færeysku máli við Fróðskaparsetur Færeyja

Grænland:

  • Karen Langgård, ráðgjafi hjá Grønlands Sprogsekretariat. Áður lektor í grænlenskum bókmenntum við Háskólann á Grænlandi
  • Katti Frederiksen, forstöðumaður Grønlands Sprogsekretariat. Hefur m.a. rannsakað tengsl grænlensku við dönsku
  • Per Langgård, tölvumálvísindamaður og ráðgjafi hjá Grønlands Sprogsekretariat. Hefur rannsakað grænlensku og unnið þróunarverkefni í tengslum við notkun grænlensku í stafrænum heimi

Ísland:

  • Ann-Sofie Gremaud, lektor í dönsku máli við Háskóla Íslands (frá hausti 2019)
  • Auður Hauksdóttir, prófessor í dönsku við Háskóla Íslands og fv. forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, er í forsvari fyrir samstarfsnetið
  • Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum og forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur
  • Birna Bjarnadóttir, verkefnisstjóri hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur við Háskóla Íslands, doktor í íslenskum bókmenntum
  • Geir Þ. Þórarinsson, aðjunkt í grísku og latínu við Háskóla Íslands
  • Gísli Magnússon, prófessor í dönskum bókmenntum við Háskóla Íslands
  • Oddný G. Sverrisdóttir, prófessor í þýsku við Háskóla Íslands
  • Pernille Folkmann, lektor í dönsku við Háskóla Íslands (til vors 2018)
  • Þórhallur Eyþórsson, prófessor í ensku við Háskóla Íslands
  • Þórhildur Oddsdóttir, aðjunkt í dönsku við Háskóla Íslands

Noregur:

  • Brit Kirsten Mæhlum, prófessor við NTNU í Þrándheimi. Hefur unnið rannsóknir á stöðu samísku í Noregi og tengslum ensku við norsku (fram til 2017)
  • Elizabeth Lanza, prófessor við Háskólann í Ósló og forstöðumaður Senter for flerspråklighet
  • Gunnstein Akselberg, prófessor við Háskólann í Bergen

Svíþjóð:

  • Ulla Börestam, prófessor við Uppsalaháskóla. Hefur rannsakað norrænan málskilning og tjáningu á grannmálum

Rannsóknaverkefni

Verkefnið í hnotskurn

Um er að ræða samanburðarrannsókn á tengslum færeysku, íslensku og norsku við dönsku á tímabilinu 1890-1920. Í þann langa tíma sem Færeyjar, Ísland og Noregur áttu í sambandi við Danmörku voru tengslin við danska tungu og menningu mikil og þótt Noregur (1814) og Ísland (1944) hafi sagt skilið við ríkjasambandið voru samskiptin engu að síður áfram náin og fjölbreytt. Frá sjónarhorni málvísinda er það áhugavert að jafn skyld norræn mál eins og færeyska, íslenska og norska hafi átt í tengslum við fjórðu norrænu tunguna yfir jafn langt tímabil. Þá er það einkar athyglisvert, hve ólíkt tungurnar þróuðust við þessar aðstæður.

Til er gnótt sögulegra ritaðra gagna á íslensku sem eru til vitnis um notkun íslensku og viðhorfa til hennar. Allt annað er uppi á teningnum með færeysku og norsku, þar sem ritmáli var ekki til að dreifa fyrr en á síðari hluta nítjándu aldar. Fjöldi málgagna fyrirfinnst á tungunum þremur frá því á síðari hluta nítjándu aldar, en það gefur einstakt tækifæri til að rannsaka tengslin við dönsku í samanburði milli málanna þriggja.

Til að framkvæma rannsóknina er unnið að því að koma upp málsafni með samanburðarhæfum málgögnum á færeysku, íslensku og norsku frá tímabilinu 1890-1920. Það útheimtir ljóslestur talsverðs magns texta á málunum þremur. Í rannsókninni verður megináhersla lögð á að kanna, hvað einkenndi tengsl tungnanna þriggja við danska tungu og menningu og hvaða þýðingu tungumálatengslin höfðu fyrir þróun orðaforða færeysku, íslensku og norsku. Auk þess verður kannað hvaða viðhorfa gætti meðal Færeyinga, Íslendinga og Norðmanna í garð móðurmálsins og dönsku í kringum aldamótin 1900.

Nordplus Sprog áætlunin og Rannsóknarsjóður Háskóla Íslands hafa stutt verkefnið.

Rannsóknarteymi

Fyrir verkefninu fer Auður Hauksdóttir, prófessor í dönsku við Háskóla Íslands. Aðrir þátttakendur í verkefninu eru:

  • Gunnstein Akselberg, prófessor í norrænum málum, Háskólanum í Bergen
  • Guðrún Kvaran, prófessor emeritus í íslensku, Háskóla Íslands
  • Kristján Árnason, prófessor emeritus í íslensku, Háskóla Íslands
  • Zakaris Svaboe Hansen, aðjunkt í færeysku, Fróðskaparsetri Færeyja

Auk þess tekur Björn Þorvarðarson, BS í tölvunarfræði, þátt í verkefninu.

Markmið

Markmiðið með rannsókninni er að kanna tungumálatengsl frá nýju sjónarhorni og með nýstárlegum hætti. Með þríhliða málsöfnum á færeysku, íslensku og norsku, sem innihalda samanburðarhæfa texta á málunum þremur frá tímabilinu 1890-1920, verður skoðað hvernig tengslin við danska tungu og menningu birtast í orðaforða færeysku, íslensku og norsku. Þannig verður umfang tökuorða úr dönsku skoðað og greint hvað þau segja til um tengsl málanna þriggja við danska tungu og menningu. Sérstaklega verður hugað að því, hvaða merkingarsviðum tökuorðin tilheyra og hvort slík flokkun í ólík merkingarsvið geti varpað nýju ljósi á tengsl landanna þriggja við Danmörku.

Annað sjónarhorn er að kanna, hvaða vísbendingar textar á tímabilinu 1890-1920 gefa um stöðu og hlutverk færeysku, íslensku og norsku og með hvaða hætti þeir varpa ljósi á viðhorf Færeyinga, Íslendinga og Norðmanna til móðurmálsins og dönsku. Í því sambandi er áhugavert að skoða, hvernig viðhorfin breyttust með aukinni vitund um eigið þjóðerni og tungu.

Tímarammi

Verkefnið hófst árið 2017 og áætlað að því muni ljúka í lok árs 2020.

Vistfræði tungumála á Grænlandi, Íslandi og í Færeyjum – heimamál, enska og dönsku

Verkefnið í hnotskurn

Viðfangsefni verkefnisins Vestnorrænn tungumálabarómeter er að rannsaka málnotkun á vestnorræna málsvæðinu, Íslandi, Færeyjum og Grænlandi með tilliti til heimamála og dönsku og ensku sem annars og þriðja máls. Markmiðið er að kanna viðhorf málhafa og málnotkun og kortleggja þar með stöðu heimamála gagnvart dönsku og ensku. Um er að ræða synkróníska rannsókn á stöðu tungumálanna í nýju fjöltyngdu málumhverfi. Rannsóknin er samstillt lýðfræðileg könnun gerð í tungumálasamfélögunum þremur til þess annars vegar rannsaka stöðu heimamála gagnvart dönsku og ensku og hins vegar til að bera saman málumhverfin þrjú.

Vinnuhópur

Verkefnastjórar eru Birna Arnbjörnsdóttir, prófessor í annarsmálsfræðum og Auður Hauksdóttir, prófessor í dönsku, báðar við Mála- og menningardeild, Háskóla Íslands.

Aðrir þátttakendur eru:

  • Arnaq Grove, lektor við háskólann á Grænlandi
  • Hjalmar Petersen, prófessor við Fróðskaparsetrið í Færeyjum
  • Karin Johanna L. Knudsen, Ph.D. við Fróðskaparsetrið í Færeyjum
  • Anne Holmen, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla

Markmið

Markmið verkefnisins er að varpa ljósi á mót tungumála í örsamfélögum Grænlands, Færeyja og Íslands með tilliti til þess hvað slíkar rannsóknar segja til um nábýli tungumála almennt.

Verkefnið verður unnið í þremur hlutum:

  • Könnun á skriflegum heimildum sem geta varpað ljósi á hvaða hlutverki danska og enska hafa innan skólakerfisins og í fjölmiðlum í löndunum þremur.
  • Kannanir meðal almennings í löndnum þremur sem beinast að hlutverki dönsku og ensku í daglegu lífi ungs fólks og í viðskiptum.
  • Samanburðarrannsókn sem miðar að því að varpa ljósi áhrif þau sem nábýli við stærri tungumál (annað nýlendumál og hitt heimsmál) hafa á málumhverfi fámennra málsamfélaga.

Bakgrunnur

Samband færeysku, grænlensku og íslensku við dönsku á sér langa sögu og dönsk menning hefur haft mikil áhrif í löndunum þremur. Snertingin við enska tungu og menningu er aftur á móti nýleg. Margt bendir til þess að áhrif ensku séu að aukast í öllum þremur löndunum og að sú þróun gangi mun lengra en þekking á dönsku og öðrum erlendum tungumálum.

Í öllum löndunum þremur er enska kennd í skólum sem erlent tungumál. Dönskukunnátta hefur öldum saman verið lykill að samskiptum íbúa vestnorræna svæðisins við umheiminn og aukið tækifæri þeirra til hreyfanleika og samfélagsþátttöku á öðrum Norðurlöndum. Þannig hefur sú kunnátta verið mikilvægur lykill að starfsmenntun jafnt sem bóknámi. Ennfremur hefur dönskukunnátta verið, og er enn, forsenda fyrir annars konar hreyfanleika fyrir Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga og skipt sköpum fyrir tækifæri þeirra til þátttöku á Norðurlöndunum til skemmri eða lengri tíma, til dæmis í tengslum við viðskipti og menntun.

Á tímum hnattvæðingar hefur enska haslað sér völl sem samskiptamál á heimsvísu og ensk tungumál og menning orðið áberandi í flestum samfélögum. Enskukunnáttu er krafist í mörgum starfsgreinum og námi. Þeirri þróun hefur víða verið lýst sem mikilli áskorun fyrir heimamál, og norrænar rannsóknir hafa sýnt fram á að enska er í auknum mæli notuð til samskipta á Norðurlöndunum, sérstaklega meðal ungs fólks. Algengt er orðið að enska sé notuð til samskipta milli Norðurlandabúa við tækifæri þar sem áður var hefð fyrir samskiptum á einu af skandinavísku tungumálunum. Til lengri tíma litið gæti þessi þróun dregið úr möguleikum á innbyrðis hreyfanleika og samfélagsþátttöku íbúa Norðurlandanna, auk þess að stofna norræna tungumálasamfélaginu í hættu.

Tímaáætlun

Verkefnið fór af stað árið 2018 og gert er ráð fyrir að því ljúki í lok árs 2021.

Skammstöfun verkefnisins er SPRoK

Markmið SPRoK samvinnu- og rannsóknarverkefnis er:

  • að rannsaka kennsluefni til sænskukennslu í Finnlandi, dönskukennslu í Færeyjum, Grænlandi og Íslandi og einnig grannmálakennslu í Danmörku með tilliti til kennslufræði, inntaks og efnisflokka
  • að greina kennslufræði og uppeldisfræði innbyggða í inntak og tungutak
  • að greina þyngdarstig
  • að beina sjónum sérstaklega að menningarmiðlun í námsefninu

SPRoK fær styrk frá Nordplus – norræn tungumál 2018 – 2021

  • Þátttökustofnanir: Háskóli Íslands, Árósaháskóli, Háskólinn í Helsinki og Fróðskaparsetur Færeyja
  • Í samvinnu við starfandi kennara á lokaári grunnskóla í Finnlandi, Færeyjum, Grænlandi, Danmörku og Íslandi

Markmið með rannsóknarverkefninu

Að beina sjónum að vali á og útgáfu námsefnis í dönsku og sænsku, svið sem að verulegu leyti er stjórnað af yfirvöldum menntamála á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi annars vegar og bera saman við stöðuna í Finnlandi. Gæði námsefnis og tungumálasýn hefur mikil áhrif á vinnuskilyrði kennara, nám og framfarir nemenda.

Að rannsaka hvort og þá í hvaða mæli sé munur á námsgögnum til sænskukennslu í Finnlandi annars vegar og dönskukennslu í vestnorrænum löndum hins vegar, þegar litið er til kennslufræði, inntaks og val á efnisflokkum eða þemum.

Að setja beina sjónum að tungumála- og menningarmiðlun í völdum námsgögnum fyrir ólíka markhópa þegar haft er í huga meiri breidd meðal nemenda en áður, þar sem æ stærri hluti hópsins hefur annan bakgrunn en þann norræna bæði í tungumáli og menningu.

Að greina tungumálið í námsgögnum og horfa þar til tíðni orða, stærðar orðaforða og æskilegri samsetningu hans.

Afrakstur

Afrakstur verkefnisins má finna í bókinni Sproglig og kulturel mangfoldighed i læremidler til sprogundervisning i Norden. Dansk og svensk som fremmedsprog, andetsprog, førstesprog, nabosprog og transitsprog sem kom út hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum í nóvember 2022. Bókin er aðgengileg í rafrænni útgáfu hér.

 

Vefsíða verkefnisins

Dansk-1-2-3

Nordplus rannsóknarverkefni sem tekur til dönsku sem námsgreinar á Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og annarsmálsumhverfi í Danmörku.

Rannsóknarverkefnið var styrkt af Nordplus – norræn tungumál 2013-2016

Dansk-1-2-3 er samvinnu og rannsóknarverkefi með þau markmið

  • að skoða málskilning á norrænum tungumálum í samfélögum sem bera æ meiri svip fjöltyngi með sterk áhrif frá ensku
  • að rannsaka og þróa saman dönsku í grunnskólum á Íslandi, Færeyjum, Grænlandi og Danmörku sem
    • námsgrein í skólanum
    • tæki í kennslunni
    • tjáskiptatæki í og utan skóla

Verkþættir

  1. Könnun meðal unglinga í lokabekk grunnskólans varðandi vitund um og afstöðu til dönsku sem námsgreinar.
  2. Könnun meðal kennara í dönsku í lokabekk grunnskólans um skoðun þeirra á færni nemenda og hvata til að læra dönsku.
  3. Fundir með tiltekin áhersluatriði
    • námskrá og starfsreglur
    • hæfni kennara og kröfur til þeirra
    • Námsefni
    • Kennslufræði tungumála

Vefsíða verkefnisins

Skýrsla

Nýsköpunarverkefni

Sýningar


Ljósmyndasýning í Veröld – húsi Vigdísar 17. janúar – 30. júní 2019

Árið 1925 komu tæplega 90 Grænlendingar til Ísafjarðar en Grænlendingar höfðu vart sést áður hérlendis. Á sýningunni er fjallað um hvernig þessi heimsókn átti rætur að rekja til deilna Dana og Norðmanna um yfirráð á hluta Austur-Grænlands, hvernig tekið var á móti gestunum á Ísafirði, athyglina sem hún vakti og hvaða þýðingu hún hafði fyrir samskipti þjóðanna. Sýningin er í sýningarsal Veraldar, húsi Vigdísar og á Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni og stendur frá 17. janúar til 30. júní 2019.

Aðstandendur

Stofnun Vígdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Safnahúsið á Ísafirði.

Sýningarstjóri

Sumarliði R. Ísleifsson

Sýningarhönnun í Veröld – húsi Vigdísar

Björn G. Björnsson

Sýningarhönnun í Landsbókasafni Íslands – Háskólabókasafni

Ólafur Engilbertsson

Grafísk hönnun

Helga Dögg

Styrktaraðilar

Prófessorsembætti Jóns Sigurðssonar við Háskóla Íslands, Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Rannsóknarsjóður Hugvísindastofnunar, Alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar, Vestnorræni höfuðborgasjóðurinn og Stofnun Vígdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.