Ársfundur Vigdísarstofnunar haldinn í Veröld

Stjórn og starfsfólk Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar. F.v. Þórhallur Eyþórsson, Ann-Sofie Nielsen Gremaud, Sofiya Zahova, Þórir Jónsson Hraundal, Isabel Alejandra Díaz, Bhanu Neupane, Þórunn Sigurðardóttir, Halldóra Þorláksdóttir, Sigrún Alba Sigurðardóttir og Valgerður Jónasdóttir. Mynd: Kristinn Ingvarsson.

 

Ársfundur Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar var haldinn í Veröld – húsi Vigdísar miðvikudaginn 10. maí 2023. Á fundinum tók ný stjórn miðstöðvarinnar formlega til starfa, en í henni sitja Bhanu Neupane fulltrúi aðalframkvæmdastjóra UNESCO, Isabel Alejandra Díaz fulltrúi íslensku UNESCO-nefndarinnar og Þórunn Sigurðardóttir, fulltrúi ríkisstjórnar tilnefnd af  menningar- og viðskiptaráðuneytinu, en fyrir hönd Háskóla Íslands þau Ann-Sofie Nielsen Gremaud stjórnarformaður, Þórir Jónsson Hraundal og Þórhallur Eyþórsson. 

Dagskráin hófst með stuttri móttöku þar sem komu saman ný stjórn, sviðsforseti Hugvísindasviðs, stjórnarformaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og starfsfólk miðstöðvarinnar. Að henni lokinni hófst ársfundurinn formlega, undir stjórn Sofiyu Zahova forstöðumanns stofnunarinnar, þar sem gefið var yfirlit starfsemi ársins 2022, ársskýrsla stofnunarinnar kynnt, ársreikningur lagður fram og farið var yfir starfið sem framundan er á árinu. Ber þar hæst ný sýning um líf og starf Vigdísar Finnbogadóttur sem áætlað er að opni á haustmánuðum í gömlu Loftskeytastöðinni við hlið Veraldar.