Tungumál og bókmenntir Rómafólks

Image

Tungumál og bókmenntir Rómafólks

Roma in the Centre er rannsóknanet fræðimanna sem stunda rannsóknir á bókmenntum, tungumáli og félagslegum málefnum Rómafólks um heim allan. Verkefnið byggir á markmiði okkar um að rannsaka, kynna og vekja athygli á bókmenntum og menningu Rómafólks/sígauna á Íslandi, á Norðurlöndum, í Evrópu og á heimsvísu. Rómafólk er í miðlægu hlutverki í netinu og öllum verkefnum þess. Við trúum því að Rómafólk eigi ekki að vera á jaðrinum í umræðu um málefni þeirra, eins og algengt er í samfélags- og fjölmiðlaumræðu, heldur í miðjunni.

Ráðgjafanefnd netsins skipa:

  • Colin Clark
  • Dragoljub Acković
  • Fred Taikon
  • Hristo Kyuchukov
  • Ian Hancock
  • Jana Horváthová
  • Lilyana Kovatcheva

Nánari upplýsingar veitir Sofiya Zahova, zahova@hi.is.

Starfsemi rannsóknanetsins felur í sér:

Þrjár vinnustofur um málefni Rómafólks og endurspeglun þeirra í ýmsum tegundum bókmennta, þjóðsagna og menningarsköpun voru haldnar með þátttöku fræðafólks af Róma-uppruna. Vinnustofurnar byggja á nýrri nálgun í Rómafræðum í norrænu samhengi og voru skipulagðar sem hér segir:

14-15. júní 2019, Háskóli Íslands: Roma in the Centre: Narratives by Roma in oral and written culture

24–25. október 2019, Finnish Literature Society, Helsinki: Roma in the Centre: Archiving Roma Cultural Heritage

12–13. maí 2020, CBEES, Södertörn University, Stokkhólmi: Roma in Nordic societies

Viðburðirnir voru styrktir af Joint Committee for Nordic research councils in the Humanities and Social Sciences (NOS-HS)

Árleg ráðstefna samtakanna Gypsy Lore Society, alþjóðlegra samtaka um málefni Rómafólks (sígauna), í samstarfi við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Háskóla Íslands og Reykjavíkurborg var haldin í Veröld – húsi Vigdísar dagana 15. -17. ágúst. Ráðstefnan er sú stærsta sem haldin er í heiminum um þetta viðfangsefni og viðburður tengdur Rómafólki af þessari stærðargráðu hefur ekki farið fram á Íslandi áður.

Margir helstu sérfræðingar heims í málefnum Rómafólks voru saman komnir á ráðstefnunni, en alls voru um 140 þátttakendur frá 33 löndum. Lykilfyrirlesarar voru Colin Clark, prófessor í félagsfræði í Edinborgarháskóla og  Lilyana Kovacheva, sjálfstæð fræðikona og baráttukona fyrir réttindum Rómafólks frá Búlgaríu. Eins og margir þátttakendur ráðstefnunnar, eru báðir þessir fræðimenn eru af Róma-uppruna.

Nýdoktorsverkefni Sofiyu Zahova styrkt af Rannsóknamiðstöð Íslands (RANNÍS). Markmið verkefnisins var að rannsaka og greina innbyrðis tengda sögu sjálfsmyndastefna Rómafólks og menningarvenja þeirra, eins og þau koma fram í ritum Rómafólks í Evrópu og annars staðar í heiminum. Romane lila (sem þýðir bækur Rómafólks / rit skrifuð á Rómaní) er framlag til fræðilegrar þekkingar og samfélagslegs skilnings á bókmenntum Rómafólks á margan hátt; sem gagnagrunnur um menningu Rómafólks, fyrirlestra, ritgerða og útgáfu, þar sem litið er á bókmenntir Rómafólks í Evrópu og á heimsvísu sem samtengt fyrirbæri.

Vonir standa til að opinn aðgangur að gagnagrunni Róma-bókmennta og fræðilegs efnis þar að lútandi, gagnist rannsakendum úr mismunandi greinum í framtíðinni. Þessi gögn munu nýtast kennurum úr röðum Rómafólks, sérfræðingum í málefnum þeirra, útgefendur úr röðum Róma og annarra minnihlutahópa og baráttufólki fyrir menningarlegum réttindum, og stuðla að aukinni virðingu fyrir menningu og tungumáli Rómafólks, sem hluta af tungumálaarfleifð heimsins. Á  tímum sem einkennast af neikvæðum staðalímyndum  og auknum fordómum gegn Rómafólki og innflytjendum um alla Evrópu, stuðlar verkefnið síðast en ekki síst að því að styrkja sjálfstaust innan samfélaga Rómafólks.

Verkefnið hefur gefið af sér:

Ítarlegan rannsóknagrunn um bókmenntir Rómafólks (þar með talin víðtæka og nýuppfærða heimildaskrá yfir ritverk skrifuð á Rómaní, lítið safn bóka á Rómaní í Stofnun Vigdísar Finnbogdóttur, safn 30 viðtala við vísindamenn, rithöfunda úr röðum Rómafólks og aðgerðasinna í málefnum þeirra, ásamt stafrænum útgáfum á textum og upptökum. Gerður var gagnagrunnur með yfir 2000 titlum sem bíða framtíðarútgáfu í varðveislusöfnum rannsókna.

Traustan fræðilegan ramma sem varð aðferðafræðilegur bakgrunnur nýdoktorsrannsóknarinnar og útgefins efnis.

Framlag til kenninga og vísindalegrar þekkingar á bókmenntum Rómafólks með kynningu niðurstaðna meðal vísindamanna;

Frumkvæði að norrænu neti vísindamanna og Róma-aðgerðarsinna sem vinna að bókmennta-, þjóðsagna- og sagnaritum (og fjáröflun til framtíðarstarfsemi);

Upphaf óformlegs alþjóðanets fyrir rannsóknir á Róma-bókmenntum, sem nú leggur drög að árlegum umræðum á stærsta fræðilega viðburði innan Rómafræðanna;

Alls 21 grein og boðsfyrirlestra flutt á 6 (íslenskum) og 15 alþjóðlegum viðburðum um efni rannsóknarverkefnisins;

8 birtar greinar og ritgerðir um bókmenntir Rómafólks.

Smásagnasafnið Sunnudagsmatur og fleiri sögur Rómafólks var gefið út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum og hefur að geyma smásögur eftir sex rithöfunda frá 20. og 21. öld: Georgí Tsvetkov, Ilonu Ferková, Jess Smith, Jorge Emilio Nedich, Jovan Nikolić og Matéo Maximoff. Verk þeirra eru fjölbreytileg og samin á ólíkum tungumálum en þeir sækja allir í sama menningarbrunn.

Sögurnar sem eru frá Argentínu, Frakklandi, Rússlandi, Serbíu, Skotlandi og Tékklandi. Bókmenntir Rómafólks og Sígauna eru lítt þekktar hér á landi. Þær eru gjarnan nátengdar munnmælahefð og endurminningum. Verkin voru valin með það í huga að gefa sem fjölbreyttasta mynd af smásögum rómískra rithöfunda.

Bókin kom út á Alþjóðlegum degi rómískunnar og var styrkt af Miðstöð íslenskra bókmennta og Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.

Kvikmyndasýningar á margverðlaunuðum kvik- og heimildarmyndum um Rómafólk sem eru leiknar eða leikstýrt af Rómafólki eða framleiddar í samráði við Rómafólk.

Listin er spegilmynd (GENDAL'IPEN á róma-máli) hvers samfélags. Spegilmynd af heiminum eins og við sjáum hann eða viljum sjá hann. Hún hefur vald til að skilgreina, varðveita og miðla einstökum hugmyndum og sameiginlegum menningarreglum. Menningarleg (þar á meðal listræn) framsetning gegnir mikilvægu hlutverki við að byggja upp þjóðernislega sjálfsmynd, en einnig sjálfsmynd sjálfsálit einstaklingsins. Í gegnum tíðina hafa listamenn beitt sköpunarkrafti sínum til að skilgreina sjálfa sig í gegnum listina og skapa sjálfsákvörðunarrétt sem sýnir þá og samfélag þeirra í jákvæðu ljósi. Um aldir hafa staðalmyndir og fordómar haft neikvæð áhrif á stöðu Rómafólks og menningu þeirra og list. List Rómafólks hefur verið útilokuð frá meginstraumi listarinnar í margar aldir, misskilin, einfölduð og listamennirnir oft sniðgengnir.

Markmið þessa verkefnis er að styðja við listsköpun listamanna úr röðum og kynna samtímalist Róma fólks á margvíslegan hátt og sýna þannig fram á að Rómasamtímalist og -listamenn bæði vilja og eiga að láta eftir sér og til sín taka.

Sem hluti af verkefninu voru skipulagðir Róma-menningardagar undir yfirskriftinni „GENDAL’IPEN“ í Reykjavík í samvinnu við samstarfsaðila frá Tékklandi. Þessi tveggja daga menningarhátíð fór fram dagana 8.-9. apríl 2022 sem hluti af Rómadögum á Íslandi í tilefni Alþjóðlega Rómadagsins.

Dagskráin samanstóð af ljósmyndasýningu, bókmenntaviðburði með þáttöku Rómarithöfunda og tónlistarflutningi tékkneskrar Rómatónlistarmanna.

Nánar um verkefnið:

Tímabil: maí 2021 – apríl 2023

Staður: Tékkland, Noregur – Ósló, Ísland – Reykjavík

Opinberir samstarfsaðilar: Vigdísarstofnun, Slovo 21, z. s., Tékklandi og Romsk kultur og ressurssenter – Romano kher / Kirkens bymisjon, Noregi