Vigdísarverðlaunin
Vigdísarverðlaunin
Íslensk stjórnvöld, Háskóli Íslands og Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar ákváðu að efna til Vigdísarverðlaunanna í tilefni af stórafmæli Vigdísar vorið 2020 og þess að þá voru liðin 40 ár frá sögulegu forsetakjöri hennar. Verðlaunin eru veitt árlega einstaklingi sem brotið hefur blað með störfum sínum í þágu menningar og þá einkum tungumála. Tilgangurinn með verðlaununum er að heiðra og vekja athygli á lofsverðu framlagi Vigdísar til tungumála og menningar, en eins og alþjóð veit hafa þessi málefni ætíð verið henni afar hugleikin. Sem velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO, Mennta-, menningar- og vísindastofnun Sameinuðu þjóðanna, hefur Vigdís lagt ríka áherslu á að efla tungumál fámennra málsamfélaga og standa þannig vörð um þann menningararf alls mannkyns sem felst í fjölbreytni tungumála.
Í stjórn Vigdísarverðlaunanna frá 2022 sitja Rósa Signý Gísladóttir dósent í málvísindum (formaður stjórnar), tilnefnd af rektor Háskóla Íslands, Birna Bjarnadóttir rannsóknasérfræðingur í bókmenntum, tilefnd af Vigdísarstofnun, og Sigtryggur Magnason, íslenskufræðingur og aðstoðarmaður innviðaráðherra, tilnefndur af menningarmálaráðherra. Magnús Diðrik Baldursson skrifstofustjóri rektorsskrifstofu Háskóla Íslands starfar með nefndinni.
Upplýsingar um verðlaunin veitir Rósa Signý Gísladóttir, rosas@hi.is.
Handhafar Vigdísarverðlaunanna