
Á sýningunni Mál í mótun í Veröld – húsi Vigdísar fá gestir tækifæri til að skyggnast inn í heim tungumálanna og kynnast hinum ýmsu tungumálum sem töluð eru í dag, allt frá gríðarstórum heimsmálum til fámennistungumála í útrýmingarhættu. Við fræðumst um hinar fjölmörgu hliðar tungumála með hjálp gagnvirkra margmiðlunarverka og heyrum raddir á þeim ólíku málum sem töluð eru á Íslandi í dag. Við sjáum hvernig tungumál hafa þróast samhliða sögu mannsins á jörðinni í meira en 300.000 ár og hvernig þau hafa dreifst og flakkað heimshorna á milli. Loks kynnumst við lífshlaupi tungumála sem, líkt og önnur lifandi fyrirbæri, verða til, þróast og taka breytingum áður en þau loks deyja út. Þá veltum við fyrir okkur hvernig hægt er að stuðla að varðveislu tungumála svo að þau geti dafnað um ókomna tíð.