
Tengsl tungumála og menningar og vistfræði tungumála á Vestur-Norðurlöndum eru í brennidepli hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur um þessar mundir. Markmiðið er að stuðla að aukinni þekkingu á stöðu tungumála á svæðinu jafnt í sögu sem samtíð. Með þetta að leiðarljósi hefur stofnunin komið á fót samstarfsnetinu Tengsl tungumála og menningar á vestnorræna svæðinu og hrint af stað tveimur rannsóknaverkefnum. Annað verkefnið er Tengsl færeysku, íslensku og norsku við dönsku á tímabilinu 1890-1920 og hitt er Tungumála barómeter, sem hefur að markmiði að skoða tengsl færeysku, grænlensku og íslensku við dönsku og ensku í samtímanum.
Þar að auki hafa fræðimenn stofnunarinnar staðið að þróun tölvustuddra námsgagna og máltækja til tungumálanáms. Má þar nefna Icelandic Online til náms í íslensku og Taleboblen, sem ætlað er til dönskunáms. Loks má nefna tölvuleikinn Talerum, sem er í þróun.
Stofnunin leggur áherslu á að miðlu þekkingu um tungumál og menningu á vestnorræna svæðinu bæði með ráðstefnu og fyririrlestrahaldi og sýningum.