
Fyrir hönd Íslands hafa fulltrúar Vigdísarstofnunar tekið sæti í stýrihóp og undirbúningsnefnd UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, vegna áratugarins og Vigdísarstofnun leggur nú drög að starfsemi sinni í þágu þessa verkefnis á sviði minnihluta- og fámennistungumála.
Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar er önnur tveggja UNESCO miðstöðva í flokki 2 sem helga sig tungumálum. Vigdís Finnbogadóttir hefur gegnt starfi velgjörðarsendiherra UNESCO í tungumálum frá árinu 1998 og er því fyrsti talsmaður tungumála á heimsvísu. Hlutverk velgjörðarsendiherra felst í að vekja athygli á mikilvægum tungumálum fyrir menningarlega fjölbreytni og standa vörð um tungumál sem eru í útrýmingarhættu.
Vigdís hefur alla tíð haldið á lofti mikilvægi tungumála og tungumálanáms. Hún var landsþekktur frönskukennari og frumkvöðull í tungumálakennslu í íslensku sjónvarpi. Mikilvægi þýðinga fyrir íslenskt mál og menningu hefur ávallt verið henni hugleikið og hún hefur sjálf þýtt þekkt verk úr frönskum leikhúsbókmenntum á íslensku.
Þýðingar eru einn af lykilþáttum í því að vernda menningararf og menningarlegan fjölbreytileika, fjölmenningarleg samskipti og efla tungumál í útrýmingarhættu. Öflugt þýðingastarf getur skipt sköpum fyrir fámennis- og minnihlutatungumál.
Birna Arnbjörnsdóttir er fulltrúi Íslands í alþjóðlegri verkefnisstjórn sem stendur að Alþjóðlegum áratugi frumbyggjatungumála. Verkefnisstjórnin er einn þeirra aðila sem hafa mótað IDIL 2022-2032 en hlutverk hennar er jafnframt að tryggja að meginreglum um þátttöku allra, gegnsæi, og aðkomu allra hagsmunaaðila sé framfylgt og beitt allan áratuginn. Alþjóðlega verkefnisstjórnin vinnur á heimsvísu í því skyni að tryggja sanngjarna þátttöku allra hagsmunaaðila í alþjóðaáratugnum og til að leiðbeina um undirbúning, áætlanagerð, framkvæmd og eftirlit með starfseminni, í samræmi við markmið Alþjóðlegu aðgerðaráætlunarinnar um IDIL 2022-2032.