Þátttaka Íslands í IDIL 2022-2032

Image
IDIL

Þátttaka Íslands í IDIL 2022-2032

Fyrir hönd Íslands hafa fulltrúar Vigdísarstofnunar tekið sæti í stýrihóp og undirbúningsnefnd UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, vegna áratugarins og Vigdísarstofnun leggur nú drög að starfsemi sinni í þágu þessa verkefnis á sviði minnihluta- og fámennistungumála. 

Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar er önnur tveggja UNESCO miðstöðva í flokki 2 sem helga sig tungumálum. Vigdís Finnbogadóttir hefur gegnt starfi velgjörðarsendiherra UNESCO í tungumálum frá árinu 1998 og er því fyrsti talsmaður tungumála á heimsvísu. Hlutverk velgjörðarsendiherra felst í að vekja athygli á mikilvægum tungumálum fyrir menningarlega fjölbreytni og standa vörð um tungumál sem eru í útrýmingarhættu. 

Vigdís hefur alla tíð haldið á lofti mikilvægi tungumála og tungumálanáms. Hún var landsþekktur frönskukennari og frumkvöðull í tungumálakennslu í íslensku sjónvarpi. Mikilvægi þýðinga fyrir íslenskt mál og menningu hefur ávallt verið henni hugleikið og hún hefur sjálf þýtt þekkt verk úr frönskum leikhúsbókmenntum á íslensku. 

Þýðingar eru einn af lykilþáttum í því að vernda menningararf og menningarlegan fjölbreytileika, fjölmenningarleg samskipti og efla tungumál í útrýmingarhættu. Öflugt þýðingastarf getur skipt sköpum fyrir fámennis- og minnihlutatungumál. 

Birna Arnbjörnsdóttir er fulltrúi Íslands í alþjóðlegri verkefnisstjórn sem stendur að Alþjóðlegum áratugi frumbyggjatungumála. Verkefnisstjórnin er einn þeirra aðila sem hafa mótað IDIL 2022-2032 en hlutverk hennar er jafnframt að tryggja að meginreglum um þátttöku allra, gegnsæi, og aðkomu allra hagsmunaaðila sé framfylgt og beitt allan áratuginn. Alþjóðlega verkefnisstjórnin vinnur á heimsvísu í því skyni að tryggja sanngjarna þátttöku allra hagsmunaaðila í alþjóðaáratugnum og til að leiðbeina um undirbúning, áætlanagerð, framkvæmd og eftirlit með starfseminni, í samræmi við markmið Alþjóðlegu aðgerðaráætlunarinnar um IDIL 2022-2032.

Kveðjur Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, Vigdísar Finnbogadóttur, velgjörðarsendiherra UNESCO fyrir tungumál og fyrrum forseta Íslands, Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands og Sæunnar Stefánsdóttur, formanns Íslensku UNESCO-nefndarinnar, í tilefni opnunar Alþjóðlegs áratugar frumbyggjatungumála - IDIL 2022-2032 í desember 2022.

Stefna Vigdísarstofnunar á meðan IDIL 2022-2032 stendur

Teymi Vigdísarstofnunar – Alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar ásamt samstarfsaðilum mun standa fyrir viðburðum og verkefnum bæði innanlands sem utan í tengslum við þemað Menningarframleiðsla og framtíð tungumála. Markmið Vigdísarstofnunar, innan ramma IDIL 2022-2032, er að stuðla að eflingu fámennismála á margvíslegan hátt. Á meðan á IDIL 2022-2032 stendur, mun Vigdísarstofnun:  

 • leggja áherslu á verkefni sem tengjast fámennismálumhverfi, minnihlutamálum og fjöltyngi, læsi, menntun og bókmenntum og menningu þeirra;
 • fjalla um vægi og afstöðu til þýðinga frá og yfir á lítil tungumál;
 • skapa vettvang fyrir umræður um áhrif tungumálasambýlis á minnihluta- og fámennismál og endurskoðun á málstefnum til að ýta undir lífvænleika tungumála;
 • taka þátt í að skapa tækifæri til náms á framhaldsstigi við Háskóla Íslands sem tengist fámennismálumhverfi og minnihlutamálum;
 • deila, kynna og miðla upplýsingum um IDIL 2022-2032, verkefni, starfsemi og árangur á Íslandi og meðal samstarfsaðila.

 Framlag Vigdísarstofnunar til IDIL 2022-2032 er þríþætt:

 

Vinnustofur rithöfunda og skálda á vestnorræna svæðinu 

Markmið er að efla samstarf og skapa vettvang fyrir rithöfunda og skáld á vestnorræna svæðinu, skáld sem skrifa á frumbyggja-, fámennis- og minnihlutatungumálum fyrir umræður um tungumálasambýli, menningararfleifð og þýðingar.  

Haldnar verða þrjár vinnustofu í Veröld – húsi Vigdísar fyrir vestnorræn skáld sem rita verk sín á frumbyggja-, fámennis- eða minnihlutatungumálum. Yfirskriftir vinnustofanna verða:  

 • tungumál og minningar 

 • aðstaða til þýðinga 

 • menningararfur og tungumálasambýli. 

Vinnustofurnar verða haldnar í samstarfi við Norræna húsið og norræna samstarfsnetið Vistfræði tungumála á Vestur-Norðurlöndum sem hefur starfað frá árinu 2015 að frumkvæði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. 

 

Kynning á bókmenntahefð Rómafólks

Með margvíslegum verkefnum innan samstarfsnetsins Roma in the Centre hefur Vigdísarstofnun á síðustu árum orðið ein af fáum rannsóknarstofnunum heims sem vinna markvisst að kynningu á bókmenntaarfi Rómafólks, m.a. með því að skipuleggja vinnustofu og ráðstefnu um bókmenntir Rómafólks og nú síðast útgáfu smásagna. Samstarfsnetið felur jafnframt í sér ýmis verkefni, m.a. á sviði menntunar Rómastúlkna í Austur-Evrópu og menningarhátíða Rómafólks. Innan ramma IDIL 2022-2032 mun starfsfólk Vigdísarstofnunar leggja sitt af mörkum til ýmissa viðburða og átaksverkefna til að efla bókmenntaarfleifð Rómafólks á heimsvísu og til að vekja athygli á sögu og samfélagi Rómafólks í íslensku samfélagi. Leitað verður samstarfs við aðrar UNESCO stofnanir í verkefninu.  

Nánari upplýsingar hér.

 

Þing fyrir þýðendur fámennis- og minnihlutatungumála 

Markmiðið er að miðla langri reynslu Íslands á sviði þýðinga og stuðla að aukinni samvinnu fræðimanna og fagfólks á sviði þýðinga fámennis- og minnihlutatungumála sem lykilatriði í því að efla og vernda tungumál.  

Skipulögð verða fimm tveggja daga þýðendaþing fyrir þýðendur fámennis- og minnihlutatungumála sem innihalda málþing og vinnustofur. Í verkefninu er byggt á reynslu síðustu ára, en Vigdísarstofnun hefur staðið fyrir þýðendaþingum á Íslandi, í Japan og í París.  

Möguleg umfjöllunarefni þýðendaþinganna eru:  

 • afstaða til þýðinga meðal fámennis- og minnihlutamála

 • þýðingarumhverfi og -tækni meðal fámennis- og minnihlutamála

 • grænlenskar þýðingar

 • samískar þýðingar

 • rómískar þýðingar