Alþjóðlegur áratugur frumbyggjatungumála

Image
""

Alþjóðlegur áratugur frumbyggjatungumála

Á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í desember 2019 var áratugurinn 2022-2032 útnefndur Alþjóðlegur áratugur frumbyggjatungumála (IDIL 2022-2032) í framhaldi af tillögu Frumbyggjavettvangsins.  

Helstu markmið IDIL 2022-2032 eru að: 

  • vekja athygli á fækkun frumbyggjatungumála og brýnni þörf á að varðveita, endurlífga og efla þau;
  • grípa strax til ráðstafana til að kynna frumbyggjamál á landsvísu og alþjóðavísu.

Árið 2016 ályktaði Frumbyggjavettvangur Sameinuðu þjóðanna að 40 prósent af þeim 6.700 tungumálum sem áætlað er að töluð séu í heiminum væru í hættu á að hverfa. Sú staðreynd að flest þessara tungumála eru frumbyggjamál setur menningu og það þekkingarkerfi sem þau tilheyra í hættu. Árið 2019 var lýst yfir Alþjóðlegu ári frumbyggja tungumála (IYIL2019) sem leiddi til IDIL 2022-2032. 

Flest tungumál heimsins eru notuð af fáum málhöfum og mörg þeirra flokkast sem mál í útrýmingarhættu. Sum eru opinber mál / ríkismál, önnur eru minnihlutamál og enn önnur frumbyggjamál. Með auknu sambýli tungumála jaðarsetjast minnihlutamál, frumbyggjamál og fámennismál auðveldlega innan þjóðríkja. Þannig getur staða þeirra veikst og þau átt á hættu að deyja út. Vigdísarstofnun hefur lýst yfir vilja til að styðja við áratuginn með verkefnum sem lúta að fámennistungumálum og byggir þar á langri reynslu af rannsóknum innan þess málaflokks. 

Frumbyggjar eru oft einangraðir, bæði hvað varðar þátttöku í stjórnmálum og almennt í samfélaginu, í þeim löndum sem þeir búa. Ástæðan er landfræðileg staðsetning frumbyggjasamfélaga, aðgreind saga þeirra og menning sem og tungumál og hefðir. Kórónuveirufaraldurinn hefur aukið jaðarsetningu frumbyggja víðs vegar um heiminn og haft neikvæð áhrif á fjölbreytileika tungumála í heiminum. 

Þrátt fyrir það eru frumbyggjar ekki einungis leiðandi í umhverfisvernd, heldur standa tungumál þeirra fyrir flókið þekkingar og samskiptakerfi sem viðurkenna þyrfti mikilvægi þeirra fyrir sjálfbæra þróun, friðaruppbyggingu og samkomulag þjóða. Frumbyggjar hlúa einnig að og efla einstaka staðbundna menningu, siði og gildi sem hafa varðveist í þúsundir ára. Frumbyggjatungumál auka við menningarlegan fjölbreytileika í heiminum. Heimurinn væri fátækari án þeirra. 

IDIL2022-2032 mun leggja hönd á plóg við að styrkja og vernda frumbyggjatungumál og bæta líf þeirra sem málin tala. Alþjóðlega aðgerðaáætlunin mun leggja sitt af mörkum til að markmið sem sett voru fram í yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna um réttindi frumbyggja, sem og í Áætlun um sjálfbæra þróun 2030, náist. Á þennan hátt er IDIL2022-2032 liður í því að tryggja velferð samfélaga víðs vegar um heiminn. 

IDIL2022-2032 er einnig ætlað að styrkja og efla hin mörgu tæki til að setja staðla sem hið alþjóðlega samfélag hefur tekið upp en í þessu felast meðal annars sértækar ráðstafanir til að vekja athygli á tungumálum og vernda þau. 

Vefsíða Sameinuðu þjóðanna um IDIL 2022-2032 

Los Pinos yfirlýsingin [Chapoltepek] um Alþjóðlegan áratug frumbyggjatungumála 

Samþykkt Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna um réttindi frumbyggja