Rit um tungumála- og menningarlegan fjölbreytileika í tungumálakennsluefni

Út er komið hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum rit um tungumála- og menningarlegan fjölbreytileika í tungumálakennsluefni á Norðurlöndunum. Bókin byggir á niðurstöðum rannsóknarverkefnisins SPRoK sem unnið var með þátttakendum frá Íslandi, Færeyjum, Finnlandi og Danmörku með stuðniningi Nordplus á tímabilinu 2018 – 2021. Kemur hún út á dönsku undir nafninu Sproglig og kulturel mangfoldighed i læremidler til sprogundervisning i Norden. Dansk og svensk som fremmedsprog, andetsprog, førstesprog, nabosprog og transitsprog. 

Í rannsókninni var fjöldi kennslubóka sem notaður er á Íslandi, Finnlandi, Færeyjum og Danmörku skoðaður til að komast að hvað börn og ungmenni á Norðurlöndunum læra um tungumál og menningu hinna Norðurlandanna, en niðurstöðurnar sýna fram á að ólíkar nálganir og sjónarmið ráða þar ferðinni.

Karen Risager er ritstjóri bókarinnar og skrifar fræðilegan inngangskafla, en greinahöfundar eru Þórhildur Oddsdóttir, Brynhildur Anna Ragnarsdóttir, Eeva-Liisa Nyqvist, Páll Isholm, Olly Óladóttir Poulsen og Bergþóra Kristjánsdóttir.

Rafræna útgáfu ritsins er hægt að sækja með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.