Stórafmæli Auðar Hauksdóttur fagnað í Veröld – húsi Vigdísar
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands tilkynnti þann 12. júní að fyrirlestrarsalur Veraldar – húss Vigdísar gengi héðan í frá undir nafninu „Auðarsalur“, til heiðurs Auði Hauksdóttur, prófessors í dönsku og fyrrverandi forstöðumanns Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Var salurinn nefndur á Auðarhátíð, afmælishátíð sem haldin var í tilefni sjötugsafmælis Auðar, í Veröld – húsi Vigdísar.
Auður Hauksdóttir á að baki einstaklega glæstan starfsferil við Háskóla Íslands og hefur á síðustu áratugum beitt sér af krafti í þágu tungumálanna og gegnt fjölmörgum trúnaðar- og stjórnunarstörfum, jafnt innan Háskólans sem utan. Það afrek Auðar sem stendur upp úr á ferli hennar er án efa bygging Veraldar – húss Vigdísar sem hún vann ötullega að í áraraðir, auk opnunar Alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar sem starfrækt er í húsinu.
Fjölmenni var á Auðarhátíð þar sem ráðstefnurit til heiðurs Auði kom út, meðlimir háskólakórsins fluttu söngatriði og gjafir og kveðjur bárust víða að. Þeir sem héldu erindi á hátíðinni voru Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands, Guðmundur Hálfdánarson sviðsforseti Hugvísindasviðs, Birna Arnbjörnsdóttir núverandi forstöðumaður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur, Gísli Magnússon prófessor í dönsku, sem afhenti Auði ráðstefnurit henni til heiðurs, Þórhildur Oddsdóttir aðjunkt í dönsku, Valgerður Jónasdóttir verkefnastjóri sem afhenti Auði fréttaannál um störf hennar hjá stofnuninni og Háskóla Íslands og Davíð Þór Jónsson prestur sem talaði fyrir hönd fyrrum nemenda.
Við óskum Auði Hauksdóttur hjartanlega til hamingju með afmælið um leið og við þökkum hennar fórnfúsa og mikilsverða framlag til Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.
Ávarp rektors Háskóla Íslands má lesa hér.
Myndir: Kristinn Ingvarsson.