Til hamingju Vigdís!

Image

Hinn 15. apríl nk. verður Vigdís Finnbogadóttir 90 ára og í júní verða 40 ár liðin frá sögulegu forsetakjöri hennar. Af þessu tilefni standa Háskóli Íslands, íslensk stjórnvöld, Reykjavíkurborg, Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, í samvinnu við Ríkisútvarpið og Hörpu, ásamt fjölda félagasamtaka og fyrirtækja fyrir afmælisdagskrá henni til heiðurs. Við það tækifæri verða verðlaun Vigdísar afhent í fyrsta sinn.

Til stóð að halda veglega hátíð í Háskólabíói á afmælisdaginn en úr því gat ekki orðið vegna þeirra aðstæðna sem nú eru uppi í samfélaginu. Þess í stað verður efnt til afmæisdagskrárinnar Til hamingju Vigdís sem sýnd verður á RÚV kl. 20 að kvöldi afmælisdagsins. Þar koma fram fjölmargir listamenn auk þess sem ýmsir munu flytja kveðju til Vigdísar á þessu merku tímamótum. 

Stór hópur samstarfsaðila að afmælishátíðinni til heiðurs Vigdísi auk ríkisstjórnar, borgaryfirvalda, Háskólans, RÚV og Hörpu. Styrktaraðilarnir eru:

Landsbankinn · Festi · Samtök atvinnulífsins · Bláa lónið · Félag hjúkrunarfræðinga · Verkfræðingafélag Íslands · Íslandsbanki · Lionsumdæmið á Íslandi · Rótarýumdæmið á Íslandi · Reginn · Foreningen Snorres venner, Noregi · Leikfélag Reykjavíkur · Morgunblaðið · ASÍ – Alþýðusamband Íslands · BSRB · Samband íslenskra sveitarfélaga · BHM – Bandalag háskólamanna · Bandalag íslenskra listamanna · Delta Kappa Gamma, félag kvenna í fræðslustörfum · Hótel Saga · Krabbameinsfélag Íslands · Félag háskólakvenna · STÍL – Samtök tungumálakennara á Íslandi · Veritas · Hvíta húsið · Félag frönskukennara.

Ríkisstjórn Íslands, Háskóli Íslands og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum standa enn fremur saman að alþjóðlegu menningarverðlaununum sem veitt verða í fyrsta sinn við þetta tilefni. Þau hlýtur einstaklingur sem brotið hefur blað með störfum sínum í þágu menningar og þá einkum tungumála. Tilgangurinn með verðlaununum er að heiðra og halda á lofti lofsverðu framlagi Vigdísar til tungumála og menningar, en eins og alþjóð veit eru þessi málefni henni afar hugleikin. Sem velgjörðarsendiherra tungumála hjá UNESCO hefur Vigdís lagt ríka áherslu á að efla tungumál fámennra málsamfélaga og standa þannig vörð um þann menningararf alls mannkyns sem felst í fjölbreytni tungumála.