Vel heppnuð alþjóðleg ráðstefna í asískum fræðum haldin í Veröld – húsi Vigdísar
Alþjóðlega ráðstefnan Generation Asia 2022 fór fram í Veröld – húsi Vigdísar dagana 22.-26. ágúst 2022, en hún var haldin í samstarfi við Nordic Institute of Asian Studies (NIAS). Á ráðstefnunni kom saman fræðafólk á sviði asískra fræða frá u.þ.b. 30 löndum og enn fleiri háskólum. Meðal þeirra efna sem voru til umfjöllunar voru áhrif kynslóðaskipta á samfélög víðs vegar um Asíu. Í tengslum við ráðstefnuna var haldin tveggja daga vinnustofa fyrir doktorsnema, þar sem asísk viðfangsefni úr samtímanum voru einnig til umræðu. Samtals 20 doktorsnemar og leiðbeinendur tóku þátt í vinnustofunni. Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, flutti opnunarávarp ráðstefnunnar.
Lykilfyrirlesarar ráðstefnunnar voru Carol Gluck, prófessor við Columbia-háskóla í New York, Chelsea Szendi Schieder, prófessor við Aoyama Gakuin háskóla í Tokyo og Jasnea Sarma, rannsóknarsérfræðingur og lektor við Háskólann í Zurich. Sérstakur boðsfyrirlesari var Jóhann Páll Árnason, prófessor emeritus við La Trobe háskóla í Melbourne og var fyrirlestur hans öllum opinn.
Aðalskipuleggjendur ráðstefnunnar voru Kristín Ingvarsdóttir, lektor í japönskum fræðum, Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum, Duncan McCargo, forstöðumaður NIAS og Philip Wenzel Kyhl, aðstoðarforstöðumaður NIAS. Ráðstefnan var styrkt af Sendiráði Kína á Íslandi, Konfúsíusarstofnuninni Norðurljós, Sasakawa sjóðnum á Íslandi, Háskóla Íslands og Hugvísindastofnun.
Eins og kunnugt er býður Mála- og menningardeild upp á fjölbreytt nám í asískum tungumálum og menningu. Um alllangt skeið hefur verið boðið upp á BA-nám í japönskum og kínverskum fræðum, og nýverið hófust styttri námsleiðir í kóreskum fræðum og hindí. Hægt er að taka kóresku sem aukagrein til BA-prófs og tvö tungumálanámskeið í hindí.