Vestnorræna deginum fagnað






Mynd: Agnete Nesse, Nitta Lyberth-Mørch, Þórhildur Oddsdóttir og Bergur D. Hansen.
Vestnorræna deginum var fagnað með málþingi í Veröld - húsi Vigdísar þann 22. september.
Á málþinginu var fjallað um tengsl íslensku, færeysku, grænlensku og norsku við dönsku og ensku og varpað ljósi á stöðu tungumálanna í samtímanum. Kynnt var til sögunnar nýtt fræðirit um tungumál og menningu á vestnorræna svæðinu, sem ber heitið Sprog- og kulturkontakt i Vestnorden. Om det færøske, grønlandske, islandske og norske sprogs møde med dansk. Jafnframt var fjallað um nýjar rannsóknir á tungumálatengslum og þróun tungumála á vestnorræna svæðinu.
Á málþinginu fluttu erindi Agnete Nesse prófessor við Háskólann í Bergen, Bergur D. Hansen lektor og deildarforseti við Fróðskaparsetur Færeyja, Þórhildur Oddsdóttir aðjúnkt emeritus við Háskóla Íslands og Nitta Lyberth-Mørch, aðjúnkt við Háskóla Grænlands. Málstofustjóri var Gísli Magnússon prófessor í dönsku við Háskóla Íslands.
Að málþinginu loknu var haldið í Norræna húsið þar sem boðið var upp á léttar veitingar og vísnasöngkonan Þorgerður Ása flutti nokkur vestnorræn lög í bland við eigið efni.
Haldið var upp á daginn í gegnum samstarf Vigdísarstofnunar við Norræna húsið og Norræna félagið, en þessi aðilar hafa átt samstarf um að fagna deginum frá árinu 2019.