Alþjóðadagur Sama

Þekkirðu merkingu orðsins Shoah? Hvað með Porrajmos, Samudaripen eða Kali Trash? Veistu hvers minnst er á heimsvísu þann 27. janúar?

27. janúar er Alþjóðlegur minningardagur um helförina og fórnarlömb hennar. Þennan dag, árið 1945, frelsuðu sovéskir hermenn fanga í útrýmingar- og fangabúðum nasista í Auschwitz-Birkenau og þennan dag heiðrum við minningu fórnarlamba helfararinnar. Við minnumst skyldu okkar til að vinna gegn gyðingahatri, kynþáttafordómum og orðræðu sem felur í sér hatur og ofbeldi í garð ákveðinna hópa. Það er mikilvægt að íhuga þá skyldu okkar nú þegar stríðsástand vekur upp minningar um átök og fangelsun fyrr á tímum.

Gyðingar og Rómafólk (sem þá var kallað Sígaunar) voru meðal þeirra hópa sem nasistar ofsóttu vegna kynþáttar og þjóðernisuppruna. Af þeim sökum hurfu mörg evrópsk samfélög sem tilheyrðu þessum hópum.

Vitnisburður um þjáningar Gyðinga og Rómafólks birtist í bókmenntatextum og endurminningum þeirra sem lifðu helförina af. Eitt elsta rit þeirrar tegundar er bókin Ef þetta er maður (Se questo è un uomo) eftir ítalska Gyðinginn Primo Levi, sem var sjálfur í hópi þeirra sem sluppu lifandi úr Auschwitz. Íslensk þýðing bókarinnar kom út árið 2022 og verður kynnt föstudaginn 27. janúar í Veröld – húsi Vigdísar klukkan 17:30.

Ein þekktasta frásögn Rómafólks sem lifði af fangelsun í búðum nasista er eftir austurrísku Rómakonuna Ceija Stojka. Hún segir frá dvöl sinni í fangabúðum sem barn þar sem hún missti flesta ættingja sína. Bókin kom nýlega út á ensku í þýðingu Lorely French.

Tungumálið var líklega eini hluti menningar og sjálfsmyndar Gyðinga og Rómafólks sem hægt var að halda í á tímum ofsókna og útrýmingar. Samfélög þeirra eiga mörg orð á sínum tungumálum fyrir helförina. Shoah (שואה) á hebresku og orðin Porrajmos, Samudaripen, Kali Trash á tungumáli Rómafólks.