í Fréttir, News

Evrópski tungumáladagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur þann 26. september ár hvert frá árinu 2001. Þann dag eru allir Evrópubúar hvattir til þess að uppgötva og kynna sér tungumál, enda er fjölbreytni tungumála tól sem hægt er að nota til þess að öðlast betri skilning á menningu annarra, og einnig mikilvægur hluti af ríkri menningarhefð heimsálfunnar.

Forsaga dagsins er sú að árið 2001 var ár tungumálanna hjá Evrópuráðinu og Evrópusambandinu, og var ætlunin að fagna fjölbreytileika tungumála og hvetja til tungumálanáms. Í kjölfar þessa ákvað Evrópuráðið að halda upp á Evrópska tungumáladaginn þann 26. september ár hvert.

Meginmarkmiðið með evrópskum tungumáladegi er þríþætt. Í fyrsta lagi að vekja athygli almennings á mikilvægi tungumálanáms og fjölga tungumálunum sem fólk lærir til að auka fjöltyngi og menningarskilning. Þá er markmið dagsins að kynna hversu fjölbreytt tungumál og menning eru í Evrópu, og um mikilvægi þess að viðhalda þeim. Loks er það tilgangur dagsins að hvetja til þess að fólk haldi áfram að læra svo lengi sem það lifir, hvort sem er í skóla eða utan skóla, og hvort heldur sem er námsins vegna, vinnunnar vegna, til að geta flust á milli staða eða bara ánægjunnar vegna.

Aldrei hafa verið fleiri tækifæri til að vinna eða læra í öðrum Evrópuríkjum, en skortur á tungumálakunnáttu kemur oft í veg fyrir að einstaklingar geti nýtt sér þessi tækifæri. Hnattvæðing og hraðar breytingar í alþjóðasamfélaginu valda því að fólk þarf í auknum mæli að kunna erlend tungumál til þess að öðlast forskot. Enska dugir ekki ein og sér.

Í Mála- og menningardeild Háskóla Íslands eru kennd þrettán erlend tungumál, og enn fleiri er hægt að læra í Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands. Auk þess sem hægt er að læra flest tungumálin til BA prófs og MA prófs er nú einnig boðið upp á diplómagráður í tungumálunum. Diplómanámið er til eins árs og er sérstaklega hugsað þannig að hægt sé að ná valdi á viðkomandi máli hratt og örugglega, öðlast lesskilning, byggja upp orðaforða og þjálfast í töluðu máli. Þannig nýtist það vel þeim sem vilja ná forskoti á vinnumarkaði. Einnig er hægt að taka námskeið sem hluta af öðru námi við Háskóla Íslands.

Það hefur því aldrei verið auðveldara en nú að bæta við sig þekkingu á tungumálum í Háskóla Íslands!

 

Aðrar fréttir
X