ÞÁTTTAKA ÍSLANDS Í IDIL 2022-2032

Framlag Íslands til alþjóðlegs undirbúnings IDIL 2022-2032

Fyrir hönd Íslands hafa fulltrúar Vigdísarstofnunar tekið sæti í stýrihóp og undirbúningsnefnd UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, vegna áratugarins og Vigdísarstofnun leggur nú drög að starfsemi sinni í þágu þessa verkefnis á sviði minnihluta- og fámennistungumála. 

Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar er önnur tveggja UNESCO miðstöðva í flokki 2 sem helga sig tungumálum. Vigdís Finnbogadóttir hefur gegnt starfi velgjörðarsendiherra UNESCO í tungumálum frá árinu 1998 og er því fyrsti talsmaður tungumála á heimsvísu. Hlutverk velgjörðarsendiherra felst í að vekja athygli á mikilvægum tungumálum fyrir menningarlega fjölbreytni og standa vörð um tungumál sem eru í útrýmingarhættu. 

Vigdís hefur alla tíð haldið á lofti mikilvægi tungumála og tungumálanáms. Hún var landsþekktur frönskukennari og frumkvöðull í tungumálakennslu í íslensku sjónvarpi. Mikilvægi þýðinga fyrir íslenskt mál og menningu hefur ávallt verið henni hugleikið og hún hefur sjálf þýtt þekkt verk úr frönskum leikhúsbókmenntum á íslensku. 

Þýðingar eru einn af lykilþáttum í því að vernda menningararf og menningarlegan fjölbreytileika, fjölmenningarleg samskipti og efla tungumál í útrýmingarhættu. Öflugt þýðingastarf getur skipt sköpum fyrir fámennis- og minnihlutatungumál. 

Birna Arnbjörnsdóttir er fulltrúi Íslands í alþjóðlegri verkefnisstjórn sem stendur að Alþjóðlegum áratugi frumbyggjatungumála. Verkefnisstjórnin er einn þeirra aðila sem hafa mótað IDIL2022-2032 en hlutverk hennar er jafnframt að tryggja að meginreglum um þátttöku allra, gegnsæi, og aðkomu allra hagsmunaaðila sé framfylgt og beitt allan áratuginn. Alþjóðlega verkefnisstjórnin vinnur á heimsvísu í því skyni að tryggja sanngjarna þátttöku allra hagsmunaaðila í alþjóðaáratugnum og til að leiðbeina um undirbúning, áætlanagerð, framkvæmd og eftirlit með starfseminni, í samræmi við markmið Alþjóðlegu aðgerðaráætlunarinnar um IDIL2022-2032.  

 

Framlag Vigdísarstofnunar til IDIL2022-2032

Teymi Vigdísarstofnunar – Alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar ásamt samstarfsaðilum mun standa fyrir viðburðum og verkefnum bæði innanlands sem utan í tengslum við þemað Menningarframleiðsla og framtíð tungumála. Markmið Vigdísarstofnunar, innan ramma IDIL 2022-2032, er að stuðla að eflingu fámennismála á margvíslegan hátt. Á meðan á IDIL 2022-2032 stendur, mun Vigdísarstofnun:  

 • leggja áherslu á verkefni sem tengjast fámennismálumhverfi, minnihlutamálum og fjöltyngi, læsi, menntun og bókmenntum og menningu þeirra;
 • fjalla um vægi og afstöðu til þýðinga frá og yfir á lítil tungumál;
 • skapa vettvang fyrir umræður um áhrif tungumálasambýlis á minnihluta- og fámennismál og endurskoðun á málstefnum til að ýta undir lífvænleika tungumála;
 • taka þátt í að skapa tækifæri til náms á framhaldsstigi við Háskóla Íslands sem tengist fámennismálumhverfi og minnihlutamálum;
 • deila, kynna og miðla upplýsingum um IDIL 2022-2032, verkefni, starfsemi og árangur á Íslandi og meðal samstarfsaðila.

 Framlag Vigdísarstofnunar til IDIL 2022-2032 er þríþætt:
  

Vinnustofur rithöfunda og skálda á vestnorræna svæðinu 

Markmið er að efla samstarf og skapa vettvang fyrir rithöfunda og skáld á vestnorræna svæðinu, skáld sem skrifa á frumbyggja-, fámennis- og minnihlutatungumálum fyrir umræður um tungumálasambýli, menningararfleifð og þýðingar.  

Haldnar verða þrjár vinnustofu í Veröld – húsi Vigdísar fyrir vestnorræn skáld sem rita verk sín á frumbyggja-, fámennis- eða minnihlutatungumálum. Yfirskriftir vinnustofanna verða:  

 • tungumál og minningar 
 • aðstaða til þýðinga 
 • menningararfur og tungumálasambýli. 

Vinnustofurnar verða haldnar í samstarfi við Norræna húsið og norræna samstarfsnetið Vistfræði tungumála á Vestur-Norðurlöndum sem hefur starfað frá árinu 2015 að frumkvæði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. 

 

Kynning á bókmenntahefð Rómafólks

Með margvíslegum verkefnum innan samstarfsnetsins Roma in the Centre hefur Vigdísarstofnun á síðustu árum orðið ein af fáum rannsóknarstofnunum heims sem vinna markvisst að kynningu á bókmenntaarfi Rómafólks, m.a. með því að skipuleggja vinnustofu og ráðstefnu um bókmenntir Rómafólks og nú síðast útgáfu smásagna. Samstarfsnetið felur jafnframt í sér ýmis verkefni, m.a. á sviði menntunar Rómastúlkna í Austur-Evrópu og menningarhátíða Rómafólks. Innan ramma IDIL2022-2032 mun starfsfólk Vigdísarstofnunar leggja sitt af mörkum til ýmissa viðburða og átaksverkefna til að efla bókmenntaarfleifð Rómafólks á heimsvísu og til að vekja athygli á sögu og samfélagi Rómafólks í íslensku samfélagi. Leitað verður samstarfs við aðrar UNESCO stofnanir í verkefninu.  

Nánari upplýsingar hér

 

Þing fyrir þýðendur fámennis- og minnihlutatungumála 

Markmiðið er að miðla langri reynslu Íslands á sviði þýðinga og stuðla að aukinni samvinnu fræðimanna og fagfólks á sviði þýðinga fámennis- og minnihlutatungumála sem lykilatriði í því að efla og vernda tungumál.  

Skipulögð verða fimm tveggja daga þýðendaþing fyrir þýðendur fámennis- og minnihlutatungumála sem innihalda málþing og vinnustofur. Í verkefninu er byggt á reynslu síðustu ára, en Vigdísarstofnun hefur staðið fyrir þýðendaþingum á Íslandi, í Japan og í París.  

Möguleg umfjöllunarefni þýðendaþinganna eru:  

 • afstaða til þýðinga meðal fámennis- og minnihlutamála
 • þýðingarumhverfi og -tækni meðal fámennis- og minnihlutamála
 • grænlenskar þýðingar
 • samískar þýðingar
 • rómískar þýðingar

Alþjóðleg aðgerðaáætlun IDIL 2022-2032

Alþjóðleg aðgerðaáætlun hins Alþjóðlega áratugar frumbyggjatungumála hefur umsjón með mikilvægum innviðum, leggur drög að helstu aðgerðum og leiðbeinir um útfærslu, eftirlit og mat á aðgerðum aðila Sameinuðu þjóðanna, ríkisstjórnir, samtök frumbyggja, hið borgaralega samfélag, háskólasamfélagið og einkageirann svo unnt sé að ná meginmarkmiðum IDIL2022-2023. Alþjóðlega aðgerðaáætlunin setur jafnframt þær meginreglur sem stýra aðgerðum, bæði innan ramma Alþjóðlega áratugarins og utan hans, sem og útkomu, niðurstöðum og væntanlegum áhrifum aðgerðanna sem ráðist verður í. 

Áætlunin kallar eftir nálgun sem samræmist kröfum hennar og því að allir hagsmunaaðilar taki höndum saman til ná fram sem víðtækustum jákvæðum áhrifum og samfélagslegum breytingum hvað varðar frumbyggjatungumál og þau sem málin tala (hvort sem það er talað mál eða táknmál). Þetta er niðurstaða  víðtækrar samvinnu og sameiginlegrar umræðu allra aðila sem hlut eiga að máli. Alþjóðlega aðgerðaáætlunin setur stefnuna fyrir sameiginlegar aðgerðir og er hugsuð sem leiðbeinandi rammi fyrir alla hagsmunaaðila til að útbúa áætlanir sem samræmast skilgreindum forgangsatriðum og sérhæfingu, í því skyni að innleiða IDIL2022-2023. Áætlanirnar geta verið svæðisbundnar, landsbundnar, staðbundnar og/eða bundnar við ákveðnar stofnanir. 

Alþjóðlega aðgerðaáætlunin er byggð upp í kringum fjóra meginþætti, til viðbótar við tæknilega viðauka: 

 1. Í inngangi eru upplýsingar um mikilvægi fjöltyngis og fjölbreytileika tungumála fyrir samfélagslega þróun og athygli vakin á viðkvæmri stöðu frumbyggjatungumála víðs vegar um heiminn. Jafnframt eru færð rök fyrir því að ráðast í tafarlausar aðgerðir í því skyni að varðveita og blása nýju lífi í frumbyggjatungumál og vekja athygli á þeim. Að lokum er samantekt á undirbúningsferli Alþjóðlegu aðgerðaáætlunarinnar.  
 1. Annar kafli gerir grein fyrir þeirri breytingakenningu (e. Theory of Change) sem liggur að baki framtíðarsýnar Alþjóðlegs áratugar frumbyggjatungumála. Jafnframt eru þau áhrif sem vænst er til að áratugurinn hafi tilgreind ásamt aðferðafræði fyrir alla hagsmunaaðila með það að markmiði að leiðbeina þeim um skipulagningu, framkvæmd, mat og eftirlit á meðan  Alþjóðlegi áratugurinn stendur yfir. Í þessum hluta eru fyrirhugaðir atburðir kynntir sem og útkoma og niðurstöður þeirra og tengsl við aðra alþjóðlega þróunarramma dregin fram. 
 1. Þriðji hlutinn fjallar um aðgerðarammann, samstarfskerfi hinna fjölmörgu hagsmunaaðila, tímaramma, megináfanga sem og stjórnunar- og samræmingaráætlun fyrir IDIL2022-2032. Þar er jafnframt fjallað um aðrar mikilvægar áætlanir sem eiga að styðja við framkvæmd Alþjóðlegu aðgerðaáætlunarinnar, nánar tiltekið Áætlun um virkjun upplýsinga (e. Resource Mobilization Strategy) og Aþjóðleg samskiptaáætlun (e. Global Communication Strategy). 
 1. Í fjórða hluta er fjallað um eftirlit og mat og nokkrar aðferðir tilgreindar sem nota má til að meta reglulega þann árangur sem náðst hefur.  
 1. Tæknilegir viðaukar innihalda lista yfir hugtök sem notuð eru, lykilskjöl, viðmiðunarramma, vegvísi Alþjóðlegu aðgerðaáætlunarinnar og útdrátt og yfirlit þar sem breytingakenningin er útskýrð.   

Alþjóðleg aðgerðaáætlun IDIL 2022-2032 á ensku 


Íslensk vefsíða IDIL 2022-2032 er styrkt af Íslensku UNESCO-nefndinni
www.unesco.is

X