Alþjóðleg ráðstefna um málefni Rómafólks haldin í Veröld – húsi Vigdísar
Árleg ráðstefna samtakanna Gypsy Lore Society, alþjóðlegra samtaka um málefni Rómafólks (sígauna), í samstarfi við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, Háskóla Íslands og Reykjavíkurborg var haldin í Veröld – húsi Vigdísar dagana 15. -17. ágúst. Ráðstefnan er sú stærsta sem haldin er í heiminum um þetta viðfangsefni og viðburður tengdur Rómafólki af þessari stærðargráðu hefur ekki farið fram á Íslandi áður.
Margir helstu sérfræðingar heims í málefnum Rómafólks voru saman komnir á ráðstefnunni, en alls voru um 140 þátttakendur frá 33 löndum. Lykilfyrirlesarar voru Colin Clark, prófessor í félagsfræði í Edinborgarháskóla og Lilyana Kovacheva, sjálfstæð fræðikona og baráttukona fyrir réttindum Rómafólks frá Búlgaríu. Eins og margir þátttakendur ráðstefnunnar, eru báðir þessir fræðimenn eru af Róma-uppruna, en Liliyana Kovacheva er fyrsta Rómakonan í Búlgaríu sem lokið hefur doktorsnámi. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, opnaði ráðstefnuna en aðalskipuleggjandi hennar var Sofiya Zahova, rannsóknarsérfræðingur við Vigdísarstofnun.
Meðal elstu heimilda um Rómafólk á Íslandi, er ljósmynd sem tekin var árið 1912 á Seyðisfirði, af Rómafólki sem komið hafði sjóleiðina frá Danmörku. Nú er hérlendis nokkuð fjölmennur hópur fólks af Róma-uppruna, m.a. frá Rúmeníu, Póllandi, Búlgaríu, Ungverjalandi og löndum fyrrum Júgóslavíu, en umræða um málefni þeirra hefur verið af skornum skammti. Rómafólk víða um heim á sér sameiginlegt tungumál, Rómaní, en talar ólíkar mállýskur eftir því hvar það býr.
Sofiya Zahova sagði nánar frá ráðstefnunn í viðtali sem birtist á vef Háskóla Íslands, í viðtali við Fréttablaðið, við Fréttir RÚV og Morgunblaðið.
Mynd hér að ofan: Róma fjölskylda á Seyðisfirði árið 1912. Mynd eftir Björn Björnsson í eigu Þjóðminjasafns Íslands.