Alþjóðlegi móðurmálsdagurinn
Notkun tækni í tungumálanámi er þema Alþjóðlegs móðurmálsdags UNESCO sem haldinn er hátíðlegur um heim allan í dag. Í tilefni dagsins er vakin athygli á þróunarverkefnum á sviði tölvustuddrar tungumálakennslu sem unnin hafa verið innan Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum.
Icelandic Online er samstarfsverkefni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Hugvísindasviðs og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Verkefnisstjóri er Birna Arnbjörnsdóttir prófessor í annarsmálsfræðum. Sjö Icelandic Online vefnámskeið í íslensku voru tekin til notkunar á tímabilinu 2004-2013, ætluð til sjálfsnáms í tölvum og snjalltækjum og öllum opin án endurgjalds. Um 250.000 manns víðs vegar um heim hafa skráð sig í námskeiðin, þar af hafa verið yfir 80.000 virkir notendur. Samvinna var við Fróðskaparsetur Færeyja og Helsinkiháskóla um gerð námskeiða í færeysku og finnlandssænsku. Þar var lokið við byrjendanámskeið í færeysku og byrjendanámskeið og eitt framhaldsnámskeið í finnlandssænsku. Einnig hafa verið lögð drög að námskeiðum á þýsku og frönsku. Frá 2019 hefur verið unnið að nýjum Icelandic Online námsvef fyrir börn á aldrinum 5-7 ára. Efnið er gagnvirkt með leikjaívafi þar sem börnin eru leidd áfram stig af stigi í þjálfuninni og tekur það mið af Aðalnámskrám leikskóla og grunnskóla. Í verkefnisstjórn barnanámskeiðanna, sem munu opna á vormisseri 2022, eru Birna Arnbjörnsdóttir, Halldóra Jóhanna Þorláksdóttir og Úlfur Alexander Einarsson.
Auður Hauksdóttir, prófessor emeritus í dönsku, hefur leitt þróunarverkefni sem beinast að dönskukennslu í Færeyjum, á Grænlandi og Íslandi og voru unnin í samstarfi við fræðimenn í sömu löndum. Annars vegar námsgagnið Taleboblen sem er ætlað til þjálfunar dansks talmáls, einkum framburðar. Hins vegar gagnvirka tölvuleikinn Talerum þar sem framvinda leiksins ræðst af dönskunotkun nemenda. Auður stýrði einnig verkefninu Frasar, sem er danskt-íslenskt máltæki á netinu, hannað með það að leiðarljósi að auðvelda Íslendingum tjáskipti á dönsku, en nýtist einnig Dönum sem vilja tjá sig á íslensku.
Tilgangur Alþjóðlega móðurmálsdagsins er að undirstrika mikilvægi tungumála- og menningarlegrar fjölbreytni og um leið mikilvægi friðar, virðingar og umburðarlyndis í öllum samfélögum. Hugmyndin að deginum fæddist í Bangladesh þar sem honum var fagnað í fyrsta skipti árið 2000.