Alþjóðlegi móðurmálsdagurinn haldinn hátíðlegur

Image

Alþjóðlegi móðurmálsdagur UNESCO er haldinn hátíðlegur um allan heim í dag, til að undirstrika mikilvægi tungumála- og menningarlegrar fjölbreytni og um leið mikilvægi friðar, virðingar og umburðarlyndis í öllum samfélögum. Hugmyndin að deginum fæddist í Bangladesh og var honum fagnað í fyrsta skipti árið 2000. 

Til að halda upp á móðurmálsdaginn bauð Vigdísarstofnun börnum á aldrinum 7-15 ára úr Landakotsskóla í Reykjavík og Álfhólsskóla í Kópavogi  í Veröld – húsi Vigdísar til taka þátt í tungumálaverkefni undir stjórn Þorgerðar Önnu Björnsdóttur, Valgerðar Jónasdóttur og Halldóru Þorláksdóttur. Stórir nemendahópar úr þessum skólum tóku þátt í verkefni dagsins, sem var að búa til tungumálatré þar sem laufblöðin voru skreytt orðum á fjölmörgum tungumálum. Markmiðið með verkefninu er að vekja ungmenni til umhugsunar um tungumál og mikilvægi þeirra, ekki síst þá staðreynd að á Ísland er land fjölda tungumála. Alls eru um 40 tungumál töluð á Íslandi og stór hluti barnanna gat státað sig af fleiru en einu móðurmáli. 

Til að fagna deginum enn fremur, stendur Vigdísarstofnun síðdegis fyrir málþinginu Milli tákna og stafa þar sem fjallað er um þýðingar milli kínversku og íslensku. Á málþinginu, sem haldið er í samstarfi við Konfúsíusarstofnunina Norðurljós, er fjallað um sögu þýðinga á milli tungumálanna tveggja, nýlenduhyggju og Austurlandahyggju í vestrænum þýðingum kínverskra heimspekirita, margræðni, ljóðaþýðingar og smásöguna „Fyrnist yfir allt“ eftir Svövu Jakobsdóttur. Meðal þátttakenda eru Geir Sigurðsson, Hjörleifur Sveinbjörnsson, Jón Egill Eyþórsson, Xinyu Zhang og Þorgerður Anna Björnsdóttir.