Elif Shafak hlýtur Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness

Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness voru veitt í annað sinn í dag, þegar Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, afhenti þau tyrkneska rithöfundinum Elif Shafak í Veröld – húsi Vigdísar á Bókmenntahátíðinni í Reykjavík. Að afhendingu lokinni flutti Elif Shafak erindi og svaraði spurningum gesta í sal. Tvær skáldsögur Elif Shafak hafa komið út á íslensku, Heiður (2014) og 10 mínútur og 38 sekúndur í þessari undarlegu veröld (2021).

Verðlaunin eru veitt alþjóðlega þekktum rithöfundi fyrir að stuðla að endurnýjun sagnalistar með verkum sínum, en fyrir það hlaut Halldór sjálfur Nóbelsverðlaunin á sínum tíma.

Þetta er í annað sinn sem verðlaunin eru veitt en þau fyrstu hlaut breski rithöfundurinn Ian McEwan árið 2019. Í valnefnd voru að þessu sinni Eliza Reid forsetafrú, Stella Soffía Jóhannesdóttir framkvæmdastjóri Bókmenntahátíðar í Reykjavík og Ian McEwan fyrsti handhafi Alþjóðlegra bókmenntaverðlauna Halldórs Laxness.

Upptöku af viðburðinum má sjá hér.