Erlendur Sveinsson færir Vigdísarstofnun gjöf
Erlendur Sveinsson, kvikmyndagerðarmaður, afhenti Vigdísarstofnun nýlega rausnarlega gjöf, fimm hluta heimildarmyndabálk sinn Drauminn um veginn, – bæði íslenska og enska gerð hans auk þess sem textuð útgáfa af fyrsta hlutanum á galisísku fylgdi með. Erlendur er allt í senn framleiðandi, handritshöfundur, klippari og leikstjóri myndanna, auk þess sem hann valdi tónlistina og kvikmyndar á móti aðalkvikmyndatökumanni verksins, sem er Siguður Sverrir Pálsson. Erlendur á að baki langan og farsælan feril sem kvikmyndagerðarmaður. Vigdís Finnbogadóttir tók við gjöfinni og færði Erlendi bestu þakkir fyrir hönd stofnunarinnar á viðburði sem haldinn var í Veröld – húsi Vigdísar þann 28. október í tengslum við útgáfu bókarinnar Á fjarlægum ströndum. Tengsl Spánar og Íslands í tímans rás. Erlendur á einnig framlag í bókinni, grein sem fjallar um Jakobsveginn sem hann ritaði ásamt Ásdísi Egilsdóttur, prófessor emirita við Háskóla Íslands.
Heimildarmyndabálkurinn fjallar um pílagrímsgöngu rithöfundarins Thors Vilhjálmssonar eftir Jakobsveginum til Santiago de Compostela í Galisíu á norðvestur Spáni árið 2005. Thor var áttræður þegar hann lét 40 ára gamlan draum sinn rætast um að ganga hinn forna 800 km langa pílagrímaveg til heilags Jakobs eftir endilöngum Norður-Spáni en Thor lést árið 2011.
„Verkið er að sumu leyti óður til tungumála“ sagði Erlendur við afhendingu myndarinnar, og að honum hafi þótt við hæfi að færa stofnuninni myndina vegna þess hve myndin sjálf og gerð hennar varpar skæru ljósi á mikilvægi tungumálanna. Aðalpersóna myndarinnar, Thor Vilhjálmsson, talaði í verkinu á svo til öllum þeim tungum sem hann kunni: íslensku, spænsku, ensku, frönsku, ítölsku, dönsku, sænsku, þýsku. Minnir þetta á mikilvægi Jakobsvegarins sem farvegs tungumála og samtengingar Evrópuvitundarinnar fyrr á öldum. Í verkinu heyrist jafnframt galisíska og helgitextar kirkjunnar sungnir á latínu. Að vinna með þann fjölda tungumála sem heyrist í myndinni, bæði á úrvinnslustigi og síðan þegar kom að því að þýða verkið þegar það var fullbúið var áskorun sem aðstandendur myndarinnar stóðu frammi fyrir. Margir lögðu þar hönd á plóg en mest mæddi þó á Oliver Kentish, tónlistarmanni, sem annaðist þýðingu myndaflokksins yfir á ensku í samvinnu við höfundinn.