Evrópski tungumáladagurinn 2021

Árlega taka Vigdísarstofnun, STÍL – Samtök tungumálakennara á  Íslandi og Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands höndum saman og fagna Evrópska tungumáldeginum í Veröld – húsi Vigdísar, með viðburðum tileinkuðum störfum tungumálakennara og tungumálatengdum verkefnum sem skólabörnum er boðið að taka þátt í.

Í ár var tungumálakennurum boðið til móttöku í Veröld – húsi Vigdísar þriðjudaginn 28. september. Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku og formaður STÍL bauð gesti velkomna í Vigdísarstofu og eftir það kynnti Eyjólfur Már Sigurðsson, forstöðumaður Tungumálamiðstöðvar fyrir gestum nýja tungumálasýningu Vigdísarstofnunar, Mál í mótun, sem opnar formlega í byrjun árs 2022. Einnig sögðu Ásta Olga Magnúsdóttir og Nils Wiberg, sýningahönnuðir hjá Gagarín, frá samstarfi sínu við Vigdísarstofnun við hönnun sýningarinnar. Að lokinni dagskrá skemmtu tungumálakennarar sér yfir léttum veitingum og spjalli.