Evrópski tungumáladagurinn 26. september

Vigdísarstofnun, STÍL – Samtök tungumálakennara á Íslandi og Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands taka árlega höndum saman og halda upp á Evrópska tungumáladaginn, með stuðningi menntamálaráðuneytisins, með því að bjóða skólabörnum og tungumálakennurum í Veröld – hús Vigdísar. Vegna samkomutakmarkana í ár, verður brugðið út af vananum og deginum fagnað með öðrum hætti. 

Í tilefni væntanlegrar útgáfu bókar um uppruna, tungumál og bókmenntir Rómafólks á vegum Vigdísarstofnunar og Háskólaútgáfunnar, verður dagurinn að þessu sinni tileinkaður tungumálum Rómafólks. Kennurum allra 8.-10. bekkja í grunnskólum landsins verður sent námsefni á glærum sem hægt er að nota í kennslu. Þar er að finna almenna kynningu á sögu og menningu Rómafólks/sígauna, ásamt tónbroti og upplestri á frumtextum og þýðingum smásagna til að kynna forvitnileg sérkenni tungumála þeirra fyrir nemendum.

Námsefnið verður aðgengilegt eftir 20. september og allir kennarar sem hafa áhuga á að fá efnið sent, geta haft samband við Valgerði Jónasdóttur (valgerdur@hi.is).

Til viðbótar er hægt að nálgast nýútkomin veggspjöld til að vekja athygli á deginum og hengja upp í skólunum. Veggspjöldin eru framlag ECML í Graz og þau má nálgast hjá Eyjólfi Má Sigurðssyni í Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands, í Veröld – húsi Vigdísar (ems@hi.is). Á heimasíðu ECML er að auki ríkulegt safn leikja, þrauta og upplýsinga um tungumál í tilefni dagsins. 

Við hvetjum alla kennara til að halda upp á Evrópska tungumáladaginn, hver með sínum hætti, tveimur virkum dögum fyrir og/eða eftir laugardaginn 26. september 2020. 

Góða skemmtun!