Evrópski tungumáladagurinn haldinn hátíðlegur
Mikið var um að vera í Veröld – húsi Vigdísar á Evrópska tungumáladaginn þann 26. september. Dagurinn er einn sá mikilvægasti í dagatali Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Í ár var deginum fagnað með tveimur mikilvægum hópum. Annars vegar börnum og hins vegar tungumálakennurum.
Sjöundi bekkur í Austurbæjarskóla heimsótti Veröld – hús Vigdísar og tók þátt í tungumálaratleik í tilefni dagsins. Mikil gleði ríkti í húsinu meðan börnin þeystust um gangana í leit að vísbendingum á spænsku, frönsku, japönsku, sænsku, ítölsku og ensku. Vísbendingarnar voru í lyklaformi, enda tungumálin lyklar að heiminum.
Síðdegis var svo haldið málþing um framburð og framburðarkennslu í samstarfi við STÍL – samtök tungumálakennara á Íslandi. Þau Marc Daniel Skibsted Volhardt og Ásta Ingibjartsdóttir héldu erindi og að þeim loknum fóru fram umræður um framburðarkennslu dönsku, ensku, frönsku, íslensku, spænsku og þýsku.