16:30 til 17:30
Evrópski tungumáladagurinn: Tungumál sem auðlind
Tungumálakennurum er boðið til málþings í tilefni af Evrópska tungumáladeginum undir yfirskriftinni „Tungumál sem auðlind“.
Viðburðurinn sem haldinn er í samstarfi Vigdísarstofnunar, STÍL – samtaka tungumálakennara og Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands, verður haldinn í Auðarsal, Veröld – húsi Vigdísar þann 26. september kl. 16:30-17:30 og léttar veitingar verða í boði að honum loknum. Mennta- og barnamálaráðuneytið styrkir viðburðinn.
Dagskrá:
Fríða B. Jónsdóttir, deildarstýra Nýsköpunarmiðju Menntamála, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur
Í erindi sínu „Veitum röddum vængi – íslenska tungumálaflóran“, mun Fríða segja frá helstu niðurstöðum doktorsannsóknar sinnar sem fjallar um fjöltyngi, samskipti og sjálfsmynd í leikskólastarfi. Þá ræðir hún einnig hvernig við getum tekist á við það í sameiningu að skapa rými fyrir fjölbreytta tungumálaflóru í menntun og samfélagi.
Hulda Skogland, sérfræðingur hjá Menntamálastofnun
Hulda mun kynna helstu niðurstöður nýrrar Eurydice könnunar um stöðu og stefnu tungumálakennslu í Evrópu. Slíkar skýrslur eru gerðar reglulega en í þeirri nýjustu er m.a. skoðað hvort viðmið í kennslu erlendra tungumála séu að breytast; hvort raunveruleg þekking nemenda í álfunni í erlendum tungumálum sé að minnka; hvaða tungumál eru kennd í skyldunámi í Evrópu og breytingar sem hafa orðið í því sambandi. Leitað er svara við því hvers vegna nemendum sem læra tvö erlend tungumál í Evrópu sé að fækka ört og hvort sú þróun sé í boði enskunnar? Einnig er staða minnihlutatungumála í álfunni skoðuð.
Þórhildur Oddsdóttir: Aðjúnkt emerítus við dönskudeild Háskóla Íslands
Þórhildur Oddsdóttir mun ræða um námsefni í tungumálakennslu í tengslum við nýútkomna bók Sproglig og kulturel mangfoldighed i laeremidler til sprog undervisning i Norden.
Anna Pála Stefánsdóttir, spænskukennari í Menntaskólanum við Hamrahlíð
Anna Pála fjallar um Tungumálanám og jákvæða sálfræði. Síðasta vor lauk Anna Pála diplómanámi á meistarastigi í jákvæðri sálfræði við Endurmenntun Háskóla Íslands. Í erindinu segir Anna Pála frá lokaverkefni sínu, hugmyndabanka til að auðvelda tungumálakennurum að flétta saman jákvæða sálfræði við hefðbundið tungumálanám á einfaldan og aðgengilegan hátt.
Kynnir: Sigrún Eiríksdóttir