Guttorms J. Guttormssonar fyrirlestraröðin

Image
Guttormur J. Guttormsson (fyrir miðju) með föður sínum, Jóni Guttormssyni, og bróður, Vigfúsi Guttormssyni, við bæinn Víðivelli í Manitoba, Kanada, ca. 1885

Guttorms J. Guttormssonar fyrirlestraröðin

Fyrirlestraröðin er haldin í minningu Guttorms J. Guttormssonar (1878 –1966), skálds Nýja Íslands. Sonur íslensku vesturfaranna Jóns Guttormssonar (1841– 1896) og Pálínu Ketilsdóttur (1849– 1886), Guttormur fæddist á bóndabænum Víðivöllum við Íslendingafljót, ekki langt frá Riverton, Manitoba. Hann missti móður sína sjö ára gamall og föður sinn sextán ára. Eftir andlát föðurins vann Guttormur ýmis störf til að sjá sér farborða, meðal annars við járnbrautarlögn, skógarhögg, byggingarvinnu og landmælingar. Árið 1908 sneri hann aftur til Víðavalla, keypti jörð foreldra sinna og stundaði þar búskap til æviloka. Eiginkona hans var Jensína Júlía Daníelsdóttir (1884–1962) og eignuðust þau fimm börn: Arnheiði, Pálínu Kristjönu, Bergljótu, Huldu Margréti og Gilbert Konráð.  

Text

Jensína Júlía Daníelsdóttir.

Image
Image
Jensína Júlía Daníelsdóttir.

Ætla má að reynsla Guttorms af umskiptum foreldra sinna hafi verið djúpstæð. Engin ástæða er heldur til að vanmeta áhrif þess að fæðast inn í tungumál foreldra sinna sem um leið er fæðing inn í sérstæðan heim máls og menningar sem stendur utan við ríkjandi tungumál og menningu kanadísku fósturjarðarinnar. Guttormur var aftur á móti ekki síður heltekinn af umhverfi og sögu staðarins, þar á meðal örlögum kanadísku frumbyggjanna sem námu þar land mörgum öldum áður en flóðbylgja innflytjenda frá Evrópu skall á upp úr miðri nítjándu öld. Í „Sandy Bar“, höfuðkvæði Guttorms, vefur hann umhverfi og sögu staðarins saman við örlagaríka reynslu íslensku landnemanna.

Líkt og gildir um önnur helstu skáld íslensk-kanadískra bókmennta, þar á meðal Stephan G. Stephansson (1853–1927), Helgu Steinvöru Baldvinsdóttur (18581941) sem tók sér skáldanafnið Undína, og Jóhann Magnús Bjarnason (1866–1945), skrifaði Guttormur einvörðungu á íslensku. Hann kenndi sjálfum sér að ferðast í heimi bókmennta og hugmyndasögu og á Víðivöllum kom hann sér upp bókasafni, sem með hans orðum átti að samanstanda af „bestu bókum höfunda frá ýmsum löndum, ekki einvörðungu safn ljóðabóka heldur einnig skáldsagna, leikrita og ritgerða.“ Skömmu eftir andlát Guttorms afréð fjölskylda hans að færa Icelandic Collection í Elizabeth Dafoe Library við Manitoba-háskóla bóksafn Guttorms og skrifborð að gjöf.

Ljóðabækur Guttorms eru eftirfarandi:

  • Jón Austfirðingur og nokkur smákvæði (1909).
  • Bóndadóttir (1920).
  • Gaman og alvara (1930).
  • Hunangsflugur (1944).
  • Kvæðasafn (1947).
  • Kanadaþistill (1958).
  • Kvæði – Úrval (1976).
  • Aurora. English Translations of Icelandic Poems (1993), í ritstjórn Heather Ölda Ireland.

Þótt Guttormur hafi verið vel þekktur sem ljóðskáld beggja vegna Atlantsála var eins og leikritin hans hvíldu á stundum í dularhjúpi Atlantshafsins. Víst er að með Tíu leikritum fangar hann melankólíu nútímans á afskekktum bökkum Íslandsár í anda framúrstefnu millistríðsára tuttugustu aldar. Þessi symbólísku og expressíónísku leikrit eru einstök í kanadískum og íslenskum bókmenntum, og eiga sér mögulega enga hliðstæðu heldur í amerískum bókmenntum.  Leikritin voru fyrst gefin út á Íslandi 1930. Árið 2015 birtust þau í enskri þýðingu Elinar Thordarsons og Christophers Crockers í tvímálaútgáfunni Ten Plays / Tíu leikrit (2015).

Í bókasafni Guttorms má meðal annars finna leikrit eftir Evrípídes, William Shakespeare, Johann Wolfgang von Goethe, Friedrich Schiller, Maurice Maeterlinck, George Bernard Shaw, August Strindberg, Anton Chekhov, Oscar Wilde, Eugene O’Neill, og Samuel Beckett. Þarna er einnig að finna heildarútgáfu á verkum Henriks Ibsens (1828–1906), staðreynd sem felur í sér djúpstæða merkingu fyrir áhugafólk um möguleg áhrif Ibsens á hugsun Guttorms um nútímann. Í bókasafni Guttorms gefur viðvera belgíska symbólistans og handhafa Nóbelsverðlaunanna í bókmenntum Maurice Maeterlinck (1862–1949) sömuleiðis fyrirheit um mögulegt dúpsævi Tíu leikrita Guttorms. Í leikritinu „Blái fuglinn“ sviðsetur Maeterlinck tilfinninguna fyrir berskjöldun manneskjunnar í nútímatilvist með því að undirstrika skynjun barna á heiminum. Við blasir tilfinningalegt umrót í kynlegu andrúmslofti, þættir sem sum af leikritum Guttorms eru rík af.

Tónlist var önnur ástríða Guttorms í lífinu. Hann kenndi sjálfum sér að spila á horn og var einleikari og stjórnandi 20 manna lúðrasveitar í þorpinu. Svo átti hann gamlan Victrola grammófón á Víðivöllum og umfangsmikið safn af klassíkri tónlist og upptökum af lúðrasveitum. Meðan Guttormur var og hét hafa afskekktir bakkar Íslandsár á sléttum Norður Ameríku þannig verið hljómmikil miðstöð sköpunar andspænis örlagríkri sögu Nýja Íslands og melankólíu nútímans.

Velunnarar GJG fyrirlestraraðarinnar:

Heather Alda Ireland, mezzó-sópranó, fyrrum heiðurskonsúll fyrir Ísland í Bresku Kólumbíu og Yokoon, og barnabarn Guttorm, er velunnari Guttorms J. Guttormssonar fyrirlestraraðarinnar. Ásamt eiginmanni sínum William Ireland (1934–2023), reyndist stuðningur Heather Öldu í tilurðarsögu fyrirlestraraðarinnar jafnframt ómetanlegur.

Stjórn GJG fyrirlestraraðarinnar:

Andrew McGillivray, Ármann Jakobsson og Birna Bjarnadóttir.

Fyrirlesarar:

Titill
Anne Carson

Text

Þann 6. október 2023 flutti skáldið og fornfræðingurinn Anne Carson fyrsta fyrirlesturinn í Guttorms J. Guttormssonar fyrirlestraröðinni í Hátíðasal Háskóla ÍslandsHesitation (Hik)

Smellið hér til að lesa fyrirlesturinn (pdf).

Image
Image