Íslensk-franska veforðabókin LEXÍA styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneyti

 

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur veitt Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum veglegan styrk til að vinna að íslensk-frönsku veforðabókinni LEXÍU. Þetta er í annað sinn sem ráðuneytið styrkir þetta verkefni. LEXÍA hefur verið í vinnslu frá 2015 og hefur áður hlotið styrki frá Miðstöð franskra bókmennta (CNL), Miðstöð íslenskra bókmennta, franska menningarmálaráðuneytinu, menntaáætlun Erasmus+, Kennslumálasjóði Háskóla Íslands og Málræktarsjóði.

LEXÍA er umfangsmikið rannsóknarverkefni á einu af fræðasviðum Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Hún hefur einnig mikið notagildi fyrir atvinnulífið, nám og kennslu. LEXÍA mun innihalda u.þ.b. 50 þúsund uppflettiorð. 

LEXÍA er unnin í samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar, sem leggur til íslenska orðagrunninn, sér um vefsíðugerð og viðmót orðabókarinnar. Sorbonne-háskóli og Háskólinn í Gautaborg hafa einnig tekið þátt í vinnu við orðabókina.

Verkefnið er langt komið og mun styrkurinn gera Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum kleift að hefja aftur vinnu við LEXÍU, en hún hefur legið niðri í tæpt ár.

Ritstjóri franska hlutans er Rósa Elín Davíðsdóttir og ritstjórar íslenska hlutans eru Þórdís Úlfarsdóttir og Halldóra Jónsdóttir.