Íslenskt-slóvakískt samstarf um nýja tækni í annarsmálskennslu

Image

Sérfræðingar og kennarar frá Konstantínháskóla í Nitra í Slóvakíu, Árnastofnun, námsgrein í hagnýtri íslensku við Háskóla Íslands og Vigdísarstofnun taka þátt í samstarfsverkefni um nýja tækni við annarsmálskennslu sem nýlega var hrundið af stað. Verkefnið snýr aðallega að kennslu fyrir erlenda námsmenn á borð við skiptinema og innflytjendur og nær yfir bæði staðkennslu og fjarnám. Það er stutt af uppbyggingarsjóði EES og er lögð áhersla á miðlun þekkingar á sviði annarsmálsfræða og notkun tækni í kennslu. 

Verkefnið hófst með heimsókn þátttakenda úr Konstantínháskóla til Íslands en á meðan á henni stóð var boðið upp á þriggja daga hraðnámskeið í slóvakísku í Veröld - húsi Vigdísar dagana 23.–25. október, auk þess sem vinnustofa var haldin með slóvakískum og íslenskum þátttakendum verkefnisins. 

Branislav Bédi, verkefnisstjóri á alþjóðasviði Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, stýrir verkefninu.