Leiðsögn listamanna og kynning á Banff listamiðstöðinni

Leiðsögn um sýninguna Vistabönd og kynning á Banff listamiðstöðinni verður haldin í Veröld – húsi Vigdísar þann 16. október. Kynningin hefst í Vigdísarstofu á 1. hæð kl. 16.

Birna Bjarnadóttir, verkefnisstjóri hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, mun kynna Banff listamiðstöðina í Alberta í Kanada. Eitt meginviðfangsefna Birnu tengist samstarfi Háskóla Íslands við Vesturheim, og hún verður nýkomin úr heimsókn til Banff listamiðstöðvarinnar.

Listamennirnir Karlotta Blöndal, Ragnar Kjartansson og Unnar Örn munu ræða um verkin sín og tengingu sína við Banff listamiðstöðina. Þau, líkt og aðrir listamenn sem taka þátt í sýningunni, eiga það sameiginlegt að tengjast miðstöðinni. Þau hafa dvalið þar í vinnustofum eða verk þeirra verið flutt þar.

Um listamennina: 

Anna Þorvaldsdótttir, f. 1977, býr og starfar í London.

Í verkum Önnu er hljóðheimurinn oft víðfeðmur og gjarnan innblásinn af framvindu og hlutföllum í náttúru og landslagi. Verkið Metacosmos er innblásið af náttúrulegu jafnvægi fegurðar og óreiðu, hvernig sannfærandi heild getur myndast úr því sem virðist við fyrstu sýn sundurleitt og óreiðukennt. Kveikjan að verkinu er eins konar myndhverfing, þar sem hugmyndin um að falla í svarthol – hið ókunna – liggur til grundvallar með óteljandi samsetningum andstæðra afla sem tengjast og eiga í samskiptum sín á milli, víkka út og dragast saman. Þessir ólíku þættir takast á og togast á úr öllum áttum, og smám saman áttar hlustandinn sig á að hann sogast inn í eðliskraft sem hann hefur enga stjórn á. Verkið var pantað af New York Philharmonic Orchestra og frumflutt undir stjórn Esa-Pekka Salonen í apríl 2018. Berlin Philharmonic frumflutti síðan verkið í Evrópu í janúar 2019 undir stjórn Alan Gilbert og Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar í janúar 2019. Við tóku svo San Francisco Symphony, Gothenburg Symphony Orchestra, Winnipeg Symphony Orchestra og Helsinki Philharmonic en verkið er á dagskrá fleiri hljómsveita á næstu árum.

Nánari upplýsingar:  https://www.annathorvalds.com

 

Karlotta Blöndal, f. 1973, býr og starfar í Reykjavík.

Ofið er kynning á rannsóknartengdri vinnustofudvöl í Banff Art Centre, 2018. Verkefnið er heimildaöflun og tilraun í efni út frá nærumhverfinu og leið til að brúa bil tveggja staða, þvert á tíma, með aðferðum myndlistar.

Upphafspunktur verkefnisins er mynd í raunstærð af skjólu sem Fjalla-Eyvindur bjó til og er til sýnis á Þjóðminjasafninu.

Nánari upplýsingar:  https://karlottablondal.net

 

Kristín Ómarsdóttir, f. 1962  hefur gefið út ljóð, skáldsögur og leikrit. Verk Kristínar hafa verið gefin út eða sýnd á Íslandi og erlendis. Kristín hefur einnig tekið þátt í myndlistarsýningum og unnið í samstarfi við myndlistarfólk.

Svanafólkið eru vatnslitir á pappír unnin 2018 – 2019

Verkin eru gerð á meðan skáldsagan Svanafólkið er skrifuð. Enginn veit hvort kom á undan, hænan, eggið, teikningin, textinn, en persónurnar kynntu sig til sögunar á sunnudegi um hávetur, alveg örugglega undir áhrifum frá Dimmalimm eftir Mugg, Guðmund Thorsteinsson (1891-1924). Myndirnar urðu til á tímabilinu 2018 til 2019. Sagan kemur út á bók á næstu misserum.

Nánari upplýsingar:  https://bokmenntaborgin.is/bokmenntavefur/hofundar/kristin-omarsdottir

 

Ragnar Kjartansson, íslenskur myndlistarmaður f. 1976, býr og starfar í Reykjavík.

Af lendum heimshryggðarinnar í Bresku Kólumbíu (From the Valley of World-Weariness in British Columbia) eru vatnslitamyndir sem Ragnar málaði þegar hann dvaldi við vinnu og sýningarhald í  Banff-listamiðstöðinni í Alberta. „Upphaflega ætlaði ég aðeins að sýna myndbandsverk en eftir að hafa unnið vatnslitamyndirnar í hjarta heimshryggðarinar í óbyggðum Bresku Kólumbíu, þá fannst mér þetta eiga vel saman,“ segir Ragnar. „heimshryggðin og þessi rómantíska löngun voru tekin föstum tökum með því að fara í vetrargalla og ganga lengst upp í þennan risavaxna dal sem brann allur í skógareldum árið 2003. Hann er þakinn dauðum, sviðnum trjám.  Aðstæðurnar höfðu áhrif. Það var snjór og skítakuldi og ég réði ekki við að vinna lengur í myndunum en ég gerði. Ég málaði eina mynd og fékk mér svo kaffi og smávindil til að hlýja mér. Vatnið fraus í penslinum,“ segir listamaðurinn og hryllir sig við kaldar minningar. (Úr viðtali Einars Fals Ingólfssonar við Ragnar Kjartansson í Morgunblaðinu 15. desember 2011).

Nánari upplýsingar: https://i8.is

 

Unnar Örn, f. 1974, er listamaður sem býr og starfar í Reykjavík.

Olivia Plender, f. 1977, er bresk, býr og starfar í Lundúnum og Stokkhólmi.

Í verkinu Guðirnir færa okkur gripinn er athygli okkar er fönguð af tveimur ljósmyndum af gripum á safni sem leiðir inn í myndband gert af Unnari Erni og Oliviu Plender sem snýst um frásögn og túlkun sögunnar. Í myndinni flytur þjóðfræðingur í nútímanum erindi eins af meintum stofnendum Danska þjóðminjasafnsins. Persónan sem hún lýsir er fornfræðingur frá 19. öld sem eins og margir fræðimenn þess tíma lagaði staðreyndir að eigin heimsmynd. Plender og Unnar Örn eru sérstaklega áhugasöm um þróun þjóðernisvitundar sem átti sér stað með rómantísku stefnunni í upphafi 19. aldar og áhrif hennar á menningarsögu Norðurlanda. Verk þeirra sýnir hvernig fornleifafræðingar fyrr og nú skapa tengsl milli gripa til að segja sögu.

Frekari upplýsingar: http://www.unnarorn.net