Málþing á Alþjóðadegi rómískunnar

Í tilefni af Alþjóðadegi rómískunnar, tungumáli Rómafólks, stóð Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar fyrir málþingi í Veröld í dag. Á þinginu héldu erindi virtir sérfræðingar í málefnum Rómafólks sem öll eru af rómísku bergi brotin og hafa getið sér gott orð fyrir áratugalangan stuðning við rómíska tungu, menningu og mannréttindi.

Meðal þess sem fjallað var um á þinginu voru farsælir starfshættir og áskoranir í tengslum við varðveislu og kynningu á rómískri tungu og menningu ásamt leiðum til að deila reynslu þessa stærsta evrópska minnihlutasamfélags, sem sætt hefur ofsóknum og mismunun í aldaraðir.

Eftir inngangsorð Sofiyu Zahova, forstöðumanns Vigdísarstofnunar og Birnu Arnbjörnsdóttur, prófessors emeritus við Háskóla Íslands, tók við fyrsta erindi þingsins, þar sem málfræðingurinn Ian Hancock, handhafi bresku heiðursorðunnar OBE og baráttumaður fyrir réttindum Rómafólks fjallaði um hvernig rómíska tungumálið endurspeglar sögu og stöðu Rómasamfélagsins. Næstur á mælendaskrá var sænski rithöfundurinn Fred Taikon, stjórnarformaður samtakanna È Romani Glinda. Ræddi hann um feril sinn og baráttu í þágu sænska Rómasamfélagsins, en fyrir hana hefur hann verið heiðraður bæði með sænsku Raoul Wallenberg verðlaununum og Illis quorum gullmedalíunni. Að lokum talaði Jana Horvathová, forstöðumaður Safns rómískrar menningar í Brno, um tilurð þess að safnið var stofnanavætt sem eina ríkisstyrkta Róma-menningarsafn heimsins og sagði frá helstu gripum sem það geymir.

Að erindum loknum fóru fram umræður sem stýrt var af Shilpu Khatri Babbar, gestaprófessor í indverskum fræðum við Háskóla Íslandsum, um mismun rómískra mállýskra og möguleikann á staðlaðri útgáfu tungumálsins. Viðburðurinn var haldinn sem hluti af dagskrá Vigdísarstofnunar í tengslum við Alþjóðlegan áratug frumbyggjatungumála 2022-2032.

Í heimsókn sinni til Íslands notuðu þau Ian Hancock, Fred Taikon og Jana Horvathová einnig tækifærið og heimsóttu veglegt safn rómískra bóka í Veröld – húsi Vigdísar, sem safnað hefur verið af Sofiyu Zahova.