Nýtt setur styður rannsóknir á hafi, loftslagi og samfélagi
Í tilefni af 80 ára afmæli Margrétar Danadrottningar hinn 16. apríl og 90 ára afmæli Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, hinn 15. apríl í ár setur Carlsbergsjóðurinn á fót dansk-íslenskt rannsóknasetur í samvinnu við íslensk stjórnvöld. Rannsóknarsetrinu er ætlað að auka skilning á samspili loftslags og vistkerfa og á áhrifum loftslagstengdra breytinga í hafinu á íslenska menningu og samfélag. Carlsbergsjóðurinn leggur röskar 500 milljónir króna (25 milljónir danskra króna) til verkefnisins, íslenska ríkið 140 milljónir króna, og Rannsóknasjóður í umsýslu Rannís, 100 milljónir króna.
Rannsóknasetrið er þvervísindalegt og mun á ensku heita „Queen Margrethe’s and Vigdís Finnbogadóttir’s Interdisciplinary Research Centre on Ocean, Climate and Society“, en á íslensku „Þvervísindalegt rannsóknasetur Margrétar drottningar og Vigdísar Finnbogadóttur um hafið, loftslag og samfélag“. Rannsóknasetrið er sameiginleg afmælisgjöf til Margrétar drottningar og Vigdísar Finnbogadóttur, fv. forseta Íslands.
Rannsóknasetrið mun hafa aðsetur bæði við Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands, og verður stýrt af Katherine Richardson, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, í samvinnu við nokkra danska og íslenska vísindamenn. Framlagi Carlsbergsjóðsins verður fyrst og fremst varið til að ráða unga, hæfileikaríka vísindamenn að verkefninu, einkum nýdoktora, en þeir munu stunda rannsóknir bæði við Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands. Þeir munu gegna lykilhlutverki við að efla samvinnu þeirra dönsku og íslensku vísindamanna sem tengjast rannsóknasetrinu.