Óskað eftir tilnefningum til Vigdísarverðlaunanna
Vigdísarverðlaunin eru alþjóðleg verðlaun sem veitt eru einstaklingi, félagasamtökum eða stofnunum sem brotið hafa blað með störfum sínum í þágu menningar og tungumála, t.d. með verkefnum á sviði fjöltyngi, menningarlegrar fjölbreytni, þýðinga og listsköpunar sem undirstrikar mikilvægi tungumálsins. Íslensk stjórnvöld, Háskóli Íslands og Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar standa að verðlaununum, sem er ætlað að heiðra lofsvert framlag Vigdísar Finnbogadóttur fyrrum forseta Íslands til tungumála og menningar.
Stjórn Vigdísarverðlaunanna kallar eftir tilnefningum um handhafa þeirra 2023. Nauðsynlegt er að stuttur rökstuðningur fylgi tilnefningunni. Frestur til að senda inn tilnefningu er mánudagurinn 22. maí. Hægt er að senda inn tilnefningar á vef Háskóla Íslands.
Nánari upplýsingar um verðlaunin má finna hér.