Ráðstefna um tungumálakennslu haldin í Veröld
Um 170 tungumálakennarar og sérfræðingar í kennslu erlendra tungumála komu saman í Veröld – húsi Vigdísar dagana 8.-9. júní á alþjóðlegu ráðstefnunni Future of Languages. STÍL – Samtök tungumálakennara á Íslandi, FIPLV – Fédération Internationale des Professeurs de Langues Vivantes og NBR – Nordic Baltic Region of FIPLV stóðu að ráðstefnunni í samstarfi við Vigdísarstofnun – alþjóðlega miðstöð tungumála og menningar.
Á ráðstefnunni voru m.a. kynntar nýjar aðferðir við tungumálakennslu og leiðir til eflingar tungumálanáms og menningarlæsis. Lykilfyrirlesarar voru Ofelia García, prófessor emerita við City University í New York, sem fjallaði um tvítyngi og fjöltyngi í kennslu tungumála og Sarah Breslin, forstöðumaður European Centre for Modern Languages (ECML) í Graz, sem fjallaði um nýsköpun í tungumálakennslu. Í lok ráðstefnunnar var málstofa tileinkuð Alþjóðlegum áratugi frumbyggjatungumála (IDIL 2022-2023). Þar héldu erindi þau Sofiya Zahova, forstöðumaður Vigdísarstofnunar og Johan Sandberg McGuinne, kennari og forseti Bágo, rithöfundasambands Sama í Svíþjóð. Fjölluðu þau um IDIL 2022-2023 og framtíð frumbyggjatungumála.
Ráðstefnan var styrkt af Mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Kennarasambandi Íslands, Hugvísindastofnun Háskóla Íslands, Hannesarholti, rektorsskrifstofu, franska sendiráðinu, þýska sendiráðinu og Omnom, en aðalskipuleggjandi hennar var Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor í spænsku við Háskóla Íslands,
Upptöku af fyrirlestri Ofelia García má sjá hér.
Upptöku af málstofu um Alþjóðlegan áratug frumbyggjatungumála má sjá hér.
Myndir: Kristinn Ingvarsson