Ráðstefnan EUROCALL 2023 haldin í Veröld – húsi Vigdísar
Hátt á annað hundrað sérfræðinga í tölvustuddri tungumálakennslu og málvísindum tóku þátt í alþjóðlegu ráðstefnunni EUROCALL 2023 sem haldin var dagana 15.-18. ágúst í Veröld – húsi Vigdísar. Um er að ræða ráðstefnu sem haldin er árlega að tilstuðlan samtakanna EUROCALL (The European Association for Computer Assisted Language Learning) sem stofnuð voru til að stuðla að sköpun og miðlun þekkingar á sviði hagnýtra málvísinda, stafrænnar kennslufræði, stafræns læsis og tölvustuddra samskipta.
Meginþema EUROCALL ráðstefnunnar í ár snerist um tungumál án aðgreiningar og endurspeglast í yfirskrift viðburðarins, „CALL for All Languages.“ Þemað var framlag til Alþjóðlegs áratugar frumbyggja tungumála 2022-2032, mótað í samræmi við þau markmið sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett fram fyrir áratuginn. Í tengslum við ráðstefnuna var boðið upp á leiðsögn um sýninguna Mál í mótun sem er gagnvirk sýning um tungumál heimsins, auk þess sem gestum gafst kostur á að prófa tungumálanámskeiðin Icelandic Online og Icelandic Online – Börn.
Aðalræðumenn ráðstefnunnar voru fagstjóri táknmálskennslu hjá Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra, Neasa Ní Chiaráin, Ussher dósent við Trinity College í Dublin, Róbert Bjarnason, framkvæmdastjóri Íbúa ses og Trond Trosterud, prófessor við UiT háskólann í Noregi.
Aðalskipuleggjandi EUROCALL 2022 og 2023 var Branislav Bédi, verkefnisstjóri á alþjóðasviði við Stofnun Árna Magnússsonar í íslenskum fræðum. Ráðstefnan var samstarfverkefni Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, Stofnunar Árna Magnússsonar í íslenskum fræðum og Háskóla Íslands. Tilkynnt var í lok ráðstefnunnar að á næsta ári yrði hún haldin í borginni Trnava í Slóvakíu.