Sýning um ævi og störf Vigdísar opnar í Loftskeytastöðinni

Image
Vigdís Finnbogadóttir

Sýning helguð ævi og áhrifum Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, verður opnuð gömlu Loftskeytastöðinni við Suðurgötu í september en þessa dagana er unnið að endurbótum á húsinu og undirbúningi sýningarinnar. Sýningin höfðar til allra aldurshópa sem munu geta kynnt sér þau margþættu og margslungnu áhrif sem Vigdís hafði m.a. á sviði jafnréttismála, umhverfismála, friðarmála og tungumála, bæði hér heima og erlendis.

Viljayfirlýsing um sýninguna milli stjórnvalda og Háskóla Íslands var undirrituð á samkomu í Hátíðasal Háskóla Íslands sem haldin var í tilefni af 110 ára afmæli háskólans 17. júní 2021. Í fyrra gerðu svo Háskóli Íslands og Vigdís samning um að Vigdís afhenti skólanum og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur til eignar ýmsa muni úr forsetatíð sinni, svo sem bréf og skjöl, gjafir erlendra þjóðhöfðingja, listmuni og fatnað auk annarra gripa úr einkaeigu sinni. Frá þeim tíma hefur verið unnið ötullega að sýningunni en sýningarstjórn hefur verið í höndum Sigrúnar Ölbu Sigurðardóttur, menningarfræðings og verkefnisstjóra við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur.

Ljáðu mér vængi

Sýningin ber heitið „Ljáðu mér vængi. Ævi og áhrif Vigdísar Finnbogadóttur“. Þar verður að sögn Sigrúnar Ölbu leitast við að varpa ljósi á áhrif Vigdísar Finnbogadóttur bæði á Íslandi og í alþjóðlegu samhengi og þau mál sem hún hefur beitt sér fyrir, bæði sem forseti Íslands og síðar sem velgjörðarsendiherra UNESCO. „Þannig eru störf hennar í þágu jafnréttismála, umhverfismála, friðarmála, tungumála og menningar tekin til sérstakrar umfjöllunar og jafnframt skoðað hvernig umræðan í samfélaginu mótaði stöðu og áherslur Vigdísar og hvernig hún tók þátt í að móta umræðuna og jafnvel breyta henni,“ segir Sigrún Alba.

Titill sýningarinnar er sótt í ljóð skáldkonunnar Huldu. „Með honum viljum við draga fram hvernig Vigdís Finnbogadóttir hefur verið mörgum, bæði konum og öðrum, hvatning til að stíga fram og láta drauma sína rætast. Vigdís hefur með hvatningu sinni, jákvæðni og góðu fordæmi, gefið mörgum byr undir báða vængi. Vigdís Finnbogadóttir fór sjálf ung út í heim, setti sér markmið og vann vel úr þeirri reynslu og hindrunum sem urðu á vegi hennar. Vigdís hefur verið mörgum fyrirmynd. Með áherslu sinni á mannréttindi, frið, náttúruvernd, menningu og tungumál hefur hún haft gífurleg áhrif, bæði á Íslandi og víða um heim, að ógleymdum þeim áhrifum sem hún hefur haft á jafnréttismál,“ segir Sigrún Alba enn fremur.

Í nánu samstarfi við Vigdísarstofnun

Sýningin verður nátengd starfsemi Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar sem finna má í næsta húsi við Loftskeytastöðina, Veröld – húsi Vigdísar. Vigdísarstofnun er starfrækt undir merkjum UNESCO, Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, og er undirstofnun Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands. „Helstu markmið Vigdísarstofnunar eru að stuðla að fjöltyngi til að auka skilning, samskipti og virðingu milli menningarheima og þjóða og að stuðla að rannsóknum á móðurmálum sem hluta af almennum mannréttindum. Frá árinu 1999 hefur Vigdís Finnbogadóttir verið velgjörðarsendiherra UNESCO en hlutverk velgjörðarsendiherra er að vekja athygli á mikilvægi tungumála fyrir menningarlega fjölbreytni og standa vörð um þau tungumál sem eiga undir högg að sækja,“ segir Ann-Sofie Nielsen Gremaud, stjórnarformaður Vigdísarstofnunar.

Hvers vegna var Vigdís kjörin forseti?

Það vakti heimsathygli árið 1980 þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands enda varð hún með því var fysta konan í heiminum sem kjörin var þjóðarleiðtogi í lýðræðislegum kosningum. „Á sýningunni er leitað svara við þeirri spurningu hvers vegna Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti. Hvað hafði hún til að bera, hvernig var framboði hennar tekið og hvaða áhrif hafði það á yngri kynslóðir og umræðu um jafnréttismál, bæði hér á landi og erlendis, að kona væri lýðræðislega kjörin forseti? “ segir Sigrún Alba.

Aðspurð um svarið við ofangreindri spurningu segir Sigrún Alba að það sé m.a. að finna í uppheldi Vigdísar, menntun, persónuleika og störfum hennar sem kennari, þýðandi, leiðsögumaður og leikhússtjóri. „Vigdís var óhrædd við að stíga fram og tala á opinskáan hátt um hluti sem áður höfðu verið álitnir feimnismál, svo sem krabbamein, ættleiðingar eða ýmsa aðra hluti sem almennt var ekki talið við hæfi að konur tjáðu sig um eða hefðu skoðanir á,” segir hún og bætir við þessir þættir séu sérstaklega teknir fyrir í sýningunni.

Framkvæmdir í Loftskeytastöðinni eru fullum gangi en reiknað er með að sýningin verði opnuð þar í september. Að sögn þeirra Sigrúnar Ölbu og Ann-Sofie er hún hugsuð fyrir alla aldurshópa. „Bæði fólks sem búsett er á Íslandi og þeirra sem koma hingað sem ferðamenn eða annarra sem sækja landið heim tímabundið, t.d. í sambandi við nám og störf. Sýningunni er einnig ætlað að höfða til ólíkra aldurshópa og verður útbúið kennsluefni í tengslum við sýninguna bæði fyrir grunnskóla og framhaldsskóla,“ segir Sigrún Alba. 

Innréttingar kallast á við skógræktaáhuga Vigdísar

Mikil rannsóknarvinna liggur því að baki sýningunni en þar hefur víða verið leitað fanga að sögn Ann-Sofie, bæði í persónulegum heimildum og opinberum skjölum. „Á sýningunni verður lögð áhersla á að miðla sögunni um Vigdísi og samfélagið sem hún er sprottinn úr í gegnum ólíka miðla, persónulega muni sem segja sögu, ljósmyndir, persónuleg bréf og opinbera umfjöllun í dagblöðum, svo að dæmi séu tekin. Á sýningunni verða einnig myndbönd og hægt að hlusta á hlaðvarp sem varpar ljósi á líf og áhrif Vigdísar. Þá verða á sýningunni listmunir og gripir sem Vigdís hefur fengið að gjöf og listaverk sem íslenskir listamenn hafa unnið og kallast á við ævi Vigdísar og áherslumál hennar. Má þar nefna verk eftir Gjörningaklúbbinn, Guðjón Ketilsson, Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur og Valtý Pétursson,” segir Sigrún Alba. 

Sigrún Alba bætir við að umgjörð sýningarinnar sé sótt í íslenskra náttúru. „Unndór Egill Jónsson hefur hannað öll sýningarborð og sýningarskápa sérstaklega fyrir sýninguna og unnið þá úr íslensku birki sem fengið er úr Vaglaskógi. Þetta finnst okkur sem stöndum að sýningunni mjög skemmtilegur þáttur og erum viss um að innréttingarnar eigi þannig eftir að skapa skemmtilega tengingu við skógræktaráhuga Vigdísar en Vigdís var á vissan hátt frumkvöðull hvað varðar skógrækt og náttúruvernd,“ segir Sigrún Alba enn fremur. 

Hún bætir við að Birna Geirfinnsdóttir og Arnar Freyr Guðmundsson hjá Studio Studio sjái um alla grafíska hönnun á sýningunni en áhersla er lögð á að útlit sýningarinnar endurspegli áherslur Vigdísar, það sé bæði virðulegt, alúðlegt og alþjóðlegt. 

Sögu Loftskeytastöðvarinnar einnig gerð skil

Undirbúningur sýningarinnar í fullum gangi í Loftskeytastöðinni og húsið mun sannarlega ganga í endurnýjun lífdaga sem vettvangur miðlunar milli Íslands og umheimsins, en í stöðinni var fyrsta eiginlega þráðlausa samband landsins við umheiminn. 

„Við höfum farið þá leið við gerð sýningarinnar að skipta Loftskeytastöðinni upp í þrjú meginrými. Í því fyrsta, sem við köllum Bláu stofuna, kynnumst við Vigdísi Finnbogadóttur og fáum ef til vill svar við þeirri spurning hvað hafi orðið til þess að hún var fyrsta konan í heiminum sem kjörinn varð þjóðarleiðtogi í lýðræðislegum kosninum. Úr Bláu stofunni ganga gestir inn í Forsetaherbergið þar sem áhersla er lögð á að varpa ljósi á íslenskt samfélag árið 1980 og kosningabaráttu og kjör Vigdísar í því samhengi. Þarna er eflaust margt sem kemur á óvart og þótti okkur sem stöndum að sýningunni það vera gagnleg áminning að rifja upp hversu stutt á veg kynjajafnrétti var komið á þessum tíma og hvernig það endurspeglaðist í orðræðunni og umfjöllun um framboð Vigdísar. Suðurstofan er svo þriðji hluti sýningarinnar en þar er lögð áhersla á hugarefni Vigdísar og þau málefni sem hún hefur beitt sér fyrir bæði sem forseti Íslands, sem velgjörðarsendiherra UNESCO í tungumálum og á öðrum vettvangi,” segir Sigrún Alba og bætir við að samskipti við útlönd séu þar rauður þráður. 

„Það leiðir okkur síðan á skemmtilegan hátt til baka inn í mótttökurými sýningarinnar þar sem einnig verður að finna litla verslun með bókum og öðrum varningi – en einnig sýningu um starfsemi Loftskeytastöðvarinnar sem tók til starfa í húsinu árið 1918. Lofskeytastöðin var einn mikilvægasti liðurinn í því að tryggja góð samskipti við útlönd. Forsenda þess að hægt væri að senda fréttir út í heim, taka á móti fréttum og eiga samskipti við fólk í öðrum löndum var að fólk gæti tjáð sig á öðrum tungumálum en íslensku. Það er því viðeigandi að Loftskeytastöðin og Veröld – hús Vigdísar sem hýsir Mála- og menningardeild Háskóla Íslands, kallist á yfir Vigdísartorg sem staðsett er á milli þeirra, og tengi saman ólíka heima,” bendir Sigrún Alba enn fremur á.

Það er fjarri því einfalt verk að gera jafnviðburðaríkri ævi og ævi Vigdísar skil á sýningu sem þessari en að sögn Sigrúnar Ölbu, sem hefur mikla reynslu af sýningarstjórn, er mikilvægt  að vinna markvisst með þá sögu sem verið er að miðla og nota ólíkar frásagnaraðferðir til að ná til ólíkra. „Það hefur verið skemmtileg og gefandi áskorun og kallað á samstarf margra ólíkra aðila, bæði sýningarstjóra, hönnuða og utanaðkomandi sérfræðinga sem veitt hafa ýmsa ráðgjöf varðandi innihald, áherslur, forvörslu og miðlun efnis á sýningunni. Svo umfangsmikil sýning sem Ljáðu mér vængi kallar á samstarf ólíkra aðila og sérfræðinga. Okkur langar því að þakka samstarfsfólki hjá ýmsum stofnunum, s.s. Þjóðminjasafni Íslands, Listasafni Íslands, Þjóðskjalasafni Íslands, Landsbókasafni Íslands, Forsætisráðuneytinu og embætti Forseta Íslands fyrir gott samstarf – að ógleymdum sérfræðingum innan Háskóla Íslands sem hafa veitt ráðgjöf varðand handrit og innihald sýningarinnar,“ segir hún. 

Kallast á við sýningu um tungumál í Veröld – húsi Vigdísar

Sem fyrr segir verður sýningin opnuð í september og að sögn þeirra Sigrúnar Ölbu og Ann-Sofie er hún hugsuð fyrir alla aldurshópa. „Bæði fólks sem búsett er á Íslandi og þeirra sem koma hingað sem ferðamenn eða annarra sem sækja landið heim tímabundið, t.d. í sambandi við nám og störf. Sýningunni er einnig ætlað að höfða til ólíkra aldurshópa og verður útbúið kennsluefni í tengslum við sýninguna bæði fyrir grunnskóla og framhaldsskóla,“ segir Sigrún Alba.

Undir þetta tekur Ann-Sofie og bendir á að sýningin myndi vettvang fyrir fyrir heimsóknir, miðlun og viðburði í samspili við sýningarstarf í Veröld – húsi Vigdísar. „Sýningin Ljáðu mér vængi kallast skemmtilega á við sýninguna Mál í mótun og þá sérstaklega þann þátt í sýningunni sem snýr að tungumálum og mikilvægi þeirra. Á sýningunni Mál í mótun er fjallað um tungumál heimsins, útbreiðslu þeirra, varðveislu og mikilvægi. Þar er lögð mikil áhersla á virkni gesta í gegnum gagnvirkan stafrænan búnað og er henni sérstaklega ætlað að höfða til skólahópa. Vigdís áttaði sig ung á því að tungumálin sem töluð voru úti í heimi voru ótal mörg og hvert og eitt þeirra fól í sér ákveðinn aðgang að heiminum. Það er því óhætt að segja að sýningarnar tvær, Ljáðu mér vængi og Mál í mótun, styðji við hvor aðra og það er von okkar að sem flestir sýningargestir nýti tækifærið og heimsæki báðar sýningarnar í sömu ferð,“ segir Ann-Sofie að endingu. 

Fréttin birtist fyrst á vef Háskóla Íslands