Þýðendaþing í París
Sendiráð Íslands í París stóð ásamt Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum fyrir þýðendaþingi þann 23. september síðastliðinn, með stuðningi frá Miðstöð íslenskra bókmennta og Icelandair. Þingið var haldið í sendiherrabústaðnum í París.
Þýðendaþingið var helgað þýðingum úr íslensku á frönsku, en mikill áhugi er á íslenskum bókmenntum í Frakklandi. Þýðendaþinginu var einnig ætlað að vekja áhuga á íslenskunámi og á þýðendastarfinu.
Ásdís Rósa Magnúsdóttir, prófessor í frönsku, tók þátt í þýðendaþinginu fyrir hönd stofnunarinnar. Aðrir þátttakendur voru Hrafnhildur Hagalín dramatúrg, Pétur Gunnarsson, rithöfundur og þýðandi, og Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur. Þýðendurnir Catherine Eyjólfsson, Éric Boury og Jean-Christophe Salaün tóku einnig þátt auk Kristínar Jónsdóttur, þýðanda og íslenskukennara í Sorbonne Université, og Hönnu Steinunnar Þorleifsdóttur við háskólann í Caen Normandie, en íslenska er kennd í þessum tveimur háskólum í Frakklandi.
Bjarni Benedikt Björnsson, fyrrum íslenskukennari í Sorbonne, stýrði pallborðsumræðum.
Þá tóku til máls fulltrúar frá frönsku bókmenntaútgáfunum Éditions Métailié, Gallimard, Grasset, Héloïse d‘Ormesson og La Martinière. Franskir íslenskunemar, blaðamenn og fulltrúar franskrar tungu hjá stjórnvöldum í Frakklandi voru einnig viðstaddir þýðendaþingið, auk annarra fræðimanna og þýðenda.
Þýðingar eru eitt meginfræðasviða Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur. Þá vill stofnunin stuðla að upplýstri umræðu í þjóðfélaginu um erlend tungumál, bókmenntir, menningu, fjöltyngi, tungumálanám og ekki síst þýðingar og menningarlæsi. Þetta hlutverk rækir stofnunin meðal annars með viðburðum eins og þýðendaþingum en einnig með fyrirlestrum, útgáfu þýddra bókmenntaverka og tímaritinu Milli mála, millimala.hi.is.
Áformað er að halda fleiri þýðendaþing á næstu misserum, bæði á Íslandi og erlendis. Þar má nefna málþing um þýðingar á milli íslensku og kínversku sem haldið verður í Veröld – Húsi Vigdísar í febrúar á næsta ári í samstarfi við Konfúsíusarstofnunina Norðurljós. Í marsmánuði 2020 verður svo fjallað um þýðingar af frönsku á íslensku og mun Sendiráð Frakklands á Íslandi taka þátt í þeim viðburði.