UNESCO málþing um eflingu frumbyggjatungumála í netheimum

„Tæknin þarf að styðja við kennslufræði“, sagði Birna Arnbjörnsdóttir í framlagi sínu til málþingsins „Efling frumbyggjatungumála í netheimum“ sem haldið var í dag í höfuðstöðvum UNESCO í París í aðdraganda opnunar Alþjóðlegs áratugar frumbyggjamála 2022-2032, sem fram fer þann 13. desember.

Birna Arnbjörnsdóttir er prófessor emerita við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands og fulltrúi Íslands í undirbúningsnefnd Alþjóðlegs áratugar frumbyggjamála. Í erindi sínu „Tuttugu ár tölvustudds tungumálanáms“ fjallaði hún um árangur og reynslu af verkefninu Icelandic Online sem hún stýrir.